Innlent

Þurfa að greiða Ágústu og Söru vangoldin laun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tvær íslenskar konur stefndu tæknifyrirtækinu Skema fyrir vangoldin laun á meðan þær unnu undir stjórn Rakelar Sölvadóttur, stofnanda Skema, í Bandaríkjunum vorið 2014.
Tvær íslenskar konur stefndu tæknifyrirtækinu Skema fyrir vangoldin laun á meðan þær unnu undir stjórn Rakelar Sölvadóttur, stofnanda Skema, í Bandaríkjunum vorið 2014. Vísir
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær tæknifyrirtækin Skema og reKode til þess að greiða þeim Ágústu Fanneyju Snorradóttur og Söru Rut Ágústsdóttur vangoldin laun vegna vinnu sinnar fyrir Skema undir stjórn Rakelar Sölvadóttur í Bandaríkjunum vorið 2014. Þær fengu aldrei greitt fyrir síðasta mánuðinn sem þær voru þar og telja auk þess að þeim hafi verið sagt upp án uppsagnarfrests sem þær áttu rétt á.

Sjá einnig: Telja sig sviknar af Skema: „Við trúðum að þetta væri einstakt tækifæri“

Samkvæmt dómi héraðsdóms þurfa fyrirtækin að greiða Ágústu og Söru hvorri um sig um 1,2 milljónir í vangoldin laun. Fyrir dómi fór reKode fram á sýknu þar sem hvorki Ágústa né Sara hefðu gefið út reikning á fyrirtækið fyrir kröfunni og því væri engin skuld til staðar. Þá væri krafan án nokkurrar sundurliðunar og því vanreifuð.

Sjá einnig: Launadeila Skema fyrir dómi: „Ég hefði sagt nánast hvað sem er til að losna við þær úr mínu húsi“

Dómurinn byggir hins vegar á því að gögn málsins sýni skýrt að reKode ætlaði að ráð Ágústu og Söru í vinnu:

„Í ljósi almennra reglna og stöðu aðila í samningssambandinu verða stefndu, sem vinnuveitendur stefnanda, að bera hallann af óljósu inntaki ráðningarsamnings aðila að öðru leyti. Eins og rakið hefur verið liggur fyrir að í lögskiptum þeirra voru drög að skriflegum en óundirrituðum ráðningarsamningi í meginatriðum lagður til grundvallar, en þar var kveðið var á um þriggja mánaða uppsagnarfrest. Þá er til þess að líta að stefnandi skuldbatt sig til þess að flytjast búferlum á fjarlægar slóðir, sem hún gerði í lok mars á grundvelli þess samningssambands sem í gildi var milli aðila. Við þær aðstæður er eðlilegt að gengið sé út frá lengri uppsagnarfresti en leiðir af almennum reglum. Því þykir rétt að miða við að stefnandi hafi verið ráðin til starfa hjá stefndu með þeim kjörum að ef til uppsagnar kæmi af hálfu annars hvors samningsaðila væri uppsagnarfrestur þrír mánuðir,“ segir í dómi héraðsdóms.

Féllst dómurinn því á kröfu kvennanna og dæmdi fyrirtækin til að greiða þeim vangoldin laun eins og áður segir.

Um tvo dóma er að ræða og má sjá þá hér og hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×