Innlent

Lífeyrisþegar með þunga bakreikninga

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Síminn hefur ekki stoppað hjá Tryggingastofnun enda eru margir í uppnámi eftir að hafa fengið bakreikning.
Síminn hefur ekki stoppað hjá Tryggingastofnun enda eru margir í uppnámi eftir að hafa fengið bakreikning. vísir/pjetur
Þar sem almannatryggingakerfið er tekjutengt þarf Tryggingastofnun (TR) að endurreikna greiðslur þegar staðfest skattframtöl eru birt. Niðurstaða endurreiknings leiðir síðan í ljós hvort lífeyrisþegi hafi fengið rétt greitt, vangreitt eða greitt umfram rétt.

Í ár var endurreiknað fyrir 53 þúsund lífeyrisþega. Niðurstaðan er sú að 49 prósent eiga inneign hjá Tryggingastofnun en 38 prósent hafa fengið ofgreitt. Meðalskuld er 128 þúsund krónur og er skuldin dregin af greiðslum í tólf mánuði. Þeir sem skulda hærri fjárhæðir fá að auki senda greiðsluseðla.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir að krabbameinssjúklingur, sem er einstætt foreldri, hafi til að mynda fengið 900 þúsund króna bakreikning. Næstu tólf mánuði þarf viðkomandi að greiða 77 þúsund krónur á mánuði til baka. Annað dæmi er öryrki sem seldi eign og þar sem söluhagnaðurinn dregst frá greiðslum TR þarf viðkomandi að greiða sem því nemur næstu mánuði. Launþegar fengju þennan hagnað beint í vasann.

Sólveig Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Tryggingastofnunar ríkisins.
Þetta eru eingöngu tvö dæmi af fjölmörgum. Það staðfestir Sólveig Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs TR. „Í dag er sex hundruð símtala dagur,“ segir hún og viðurkennir að mörg símtölin séu erfið. En svona virki tekjutengt kerfi og þótt reynt sé að gera nákvæmar áætlanir geti vanáætlaðar tekjur, svo sem greiðslur frá lífeyrissjóðum, fjármagnstekjur eða launatekjur, riðlað áætluninni.

„Með endurreikningi er verið að tryggja að allir fái rétta upphæð. Í raun er þetta réttlætismál,“ segir Sólveig en bendir á að ráðgjafar TR hjálpi fólki að gera réttar áætlanir og frekar ofmeta tekjur en hitt svo ekki komi til skuldar. Hún viðurkennir þó að kerfið geti verið flókið.

„Það er búið að ræða að einfalda almannatryggingakerfið í mörg ár. Nefndir hafa verið að störfum en ekki enn verið sátt um niðurstöðu. Og á meðan svo er framkvæmum við samkvæmt núverandi lögum.“

Sólveig segir stofnunina þó mjög fúsa til að semja við fólk. „Það er hægt að liðka til ef þetta er íþyngjandi fyrir fólk og dreifa skuldinni á fleiri mánuði.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×