Viðskipti innlent

Dominos í Bretlandi kaupir hlut í Dominos á Íslandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dominos á Íslandi selur frændum vorum á Norðurlöndunum pizzur.
Dominos á Íslandi selur frændum vorum á Norðurlöndunum pizzur.
Domino‘s í Bretlandi (Domino‘s Pizza Group), stærsta pizzukeðja Bretlands, hefur keypt hlut í rekstri Domino‘s á Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Kaupverðið er sagt vera 24 milljónir punda. Það jafngildir rúmum 4 milljörðum króna.  Breska fyrirtækið, sem er skráð í bresku kauphöllina, hyggst með fjárfestingunni taka þátt í fyrirhugaðri uppbyggingu Domino‘s keðjunnar á Norðurlöndunum en sérleyfi fyrir rekstri Domino‘s staða í Noregi, Svíþjóð og Færeyjum er í eigu íslenska fyrirtækisins Pizza-Pizza ehf. Viðskiptin munu ekki hafa nein áhrif á íslenska neytendur og fyrirtækið verður áfram í meirihlutaeigu íslenskra aðila.

Í tilkynningu vegna viðskiptanna segir að með kaupunum innleysi íslenskir eigendur hluta af þeirri fjárfestingu sem lögð hefur verið í vöxt fyrirtækisins á Norðurlöndunum á undanförnum árum. Fyrirtækið er komið vel á veg með uppbyggingu Domino‘s í Noregi og hyggst á næstunni opna fyrstu Domino‘s staðina í Svíþjóð. 

Framtakssjóðurinn EDDA, sem rekinn er af verðbréfafyrirtækinu Virðingu, keypti fjórðungshlut í Domino‘s á Íslandi í mars í fyrra en EDDA er í eigu nokkurra lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta. EDDA selur, líkt og aðrir íslenskir hluthafar, part af sínum hlut í fyrirtækinu til Domino‘s Pizza Group í þessum viðskiptum.

Stjórnendur verða hinir sömu eftir kaupin. Birgir Bieltvedt verður starfandi stjórnarformaður á þeim mörkuðum sem viðskiptin spanna. Birgir Örn Birgisson verður áfram forstjóri Domino’s Pizza á Íslandi og þá mun Agla Jónsdóttir, núverandi fjármálastjóri móðurfélags Domino‘s á Íslandi, taka að sér yfirfjármálastjórnun allra félaganna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×