Viðskipti innlent

Gjaldeyrisútboðið verður 16. júní

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Seðlabanki Íslands ætlar að halda gjaldeyrisútboð þann 16. júní. Þá mun bankinn bjóðast til að kaupa aflandskrónur sem í skiptum fyrir reiðufé í erlendum gjaldeyri. Útboðið er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta.

Samkvæmt tilkynningu á vef Seðlabankans verður útboðsfyrirkomulagið með þeim hætti að samþykkt tilboð muni bjóðast fjárfestum á sama verði. Verð seldra evra muni ráðast af þátttöku, en verðið má sjá á mynd hér að neðan.

Aflandskrónueignir eru nú yfir 300 milljarðar króna.

Frumvarp um þetta útboð var samþykkt á sunnudagskvöldið.

Aflandskrónur sem ekki fara út í útboði Seðlabankans verða lagðar inn á reikninga sem háðir eru sérstökum takmörkunum. Reikningarnir bera litla sem enga vexti, eða 0,5 prósent, og þar af leiðandi nokkuð óhentugir fyrir aflandskrónueigendur.

Þá segir í lögunum að einstaklingi, sem sé raunverulegur eigandi aflandskrónueigna, sé heimilt að taka út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands. Hámarksúttekt hvers einstakling er ein milljón króna á ári.

Með lögunum er Seðlabanka Íslands heimilt að leggja stjórnvaldssektir og dagsektir fáist ekki umbeðnar upplýsingar og gögn, eða ef bankanum er vísvitandi veittar rangar upplýsingar eða kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests er ekki sinnt. Sektirnar geta numið frá 50 þúsund krónum til 50 milljóna króna á dag á einstaklinga. Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið allt að 65 milljónum króna og sektir á lögaðila allt að 500 milljónum króna. Slíkum sektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi, að því er segir í lögunum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.