Viðskipti innlent

Segir meirihluta starfsemi sinnar vera erlendis

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Ólafsson
Ólafur Ólafsson Vísir/Vilhelm
Ólafur Ólafsson, fjárfestir, hefur sent fjölmiðlum yfirlýsingu vegna umfjöllunar um eignir hans erlendis en fjallað var um fjárfestingar hans í gegnum félög í Lúxemborg í Morgunblaðinu í dag.

Í yfirlýsingu sinni segir Ólafur, sem nú afplánar fangelsisdóm vegna Al Thani-málsins á áfangaheimilinu Vernd, að hann hafi verið búsettur erlendis frá árinu 2005. Fyrst hafi hann verið með heimili á Englandi en síðan í Sviss frá árinu 2009. Ólafur kveðst vera með langstærstan hluta sinnar starfsemi erlendis þar sem hann veitir hátt í 2000 manns atvinnu.

„Þar má nefna nefna félögin KIMI SARL í Lúxemborg og Neptune Holding BV í Hollandi sem fjallað er um í Morgunblaðinu í dag,“ segir í yfirlýsingu Ólafs.

Nefnir hann ýmis verkefni sem KIMI hafi komið að, meðal annars uppbyggingu fiskvinnslu og löndunarstöðvum í Síerra Leóne og til uppbyggingar og stækkunar Landnámssetursins í Borgarnesi.

Upplýsingar um félagið, og fleiri félög sem Ólafur kemur að, eru opinber gögn að sögn hans sem almenningur getu nálgast í fyrirtækjaskrám þeirra landa sem þau hafa starfsemi.

Yfirlýsingu Ólafs má sjá í heild hér að neðan:

Frá árinu 2005 hef ég verið búsettur erlendis, fyrst með heimili á Englandi en í Sviss frá 2009.  Langstærstur hluti starfsemi minnar er utan Íslands. Ég kem að rekstri fjölda fyrirtækja erlendis sem veita hátt í 2000 manns atvinnu. Þar má nefna nefna félögin KIMI SARL í Lúxemborg og Neptune Holding BV í Hollandi sem fjallað er um í Morgunblaðinu í dag.

KIMI hefur meðal annars staðið að hjálparstarfi með uppbyggingu á fiskvinnslu og löndunarstöðvum í Sierra Leone í Afriku en um er að ræða umfangsmesta og metnaðarfyllsta þróunarstarf í sjávarútvegi í landinu. Verkefnið er unnið í samstarfi við Aurora velgjörðarsjóð sem konan mín og ég höfum starfrækt frá árinu 2007. Sjóðurinn hefur komið að fleiri umfangsmiklum hjálpar- og þróunarverkefnum í Afríku sem hægt er að lesa um á vefsíðu Aurora.

Í gegnum félagið Neptune Holding hefur verið fjárfest í sjávarútvegi utan Íslands. Nefna má fyrirtækið Asia Seafood, sem er með móðurfélag á Íslandi og kaupir sjávarafurðir af útgerðum við Kyrrahafið, til vinnslu og sölu á markaði í Asíu og Bandaríkjunum. Fyrirtækið veltir árlega yfir 200 milljónum Bandaríkjadala (tæpum 29 milljörðum króna). Neptune Holding hefur einnig fjárfest í Lumar Seafood á Spáni sem rekur sérhæfða verksmiðju sem framleiðir hágæða fiskrétti og túnfisk til sölu í Evrópu. Þá á Neptune einnig línuveiðiskipið Ana Barral sem  hefur stundað veiðar á Indlandshafi.

Árið 2013 lagði KIMI 350 þúsund evrur til fjárfestingar á Íslandi. Megin þorri þeirra fjármuna fóru til uppbyggingar áeldhúsi og stækkunar Landnámssetursins í Borgarnesi sem við höfum stutt við frá upphafi. Það var liður í að styðja við fjölbreytt menningarlíf í Borgarnesi og stuðla að uppbyggingu í samfélaginu.

Upplýsingar um þessi félög og fleiri sem ég kem að eru opinber gögn sem almenningur getur nálgast í fyrirtækjaskrám þeirra landa sem þau hafa starfsemi í .


Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.