Viðskipti innlent

Segir arðgreiðslur hluta af heilbrigðu atvinnulífi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA Samtaka atvinnulífsins. Vísir/GVA
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir arðgreiðslur hluta af heilbrigðu atvinnulífi, en umræðu um atvinnulífið mun neikvæðari á Íslandi en í nágrannalöndum okkar. Vel rökstudd gagnrýni eigi alltaf rétt á sér en almennt sé of mikil neikvæðni í garð fyrirtækja og of lítill skilningur á mikilvægi þeirra. Þetta kom fram í máli hans í Bítinu á Bylgjunni í upphafi vikunnar þar sem arðgreiðslur og traust til stjórnenda fyrirtækja voru til umræðu.

„Ég held að við búum við það enn eftir hrunið að umræða um atvinnulífið er yfirgengilega neikvæð og stjórnmálin hafa t.d. verið afar neikvæð í garð atvinnulífsins. Það hefur allt og lítið verið rætt um það að heilbrigt og öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar okkar,“ sagði Þorsteinn og benti á að fyrirtæki bjóði fólki störf, skapi verðmæti og afli ríkissjóði tekna. „Þannig byggjum við upp öflugt og gott samfélag.“

Varðandi gagnrýni á launaþróun stjórnenda í opinberri umræðu benti Þorsteinn á að frá 2005 og til dagsins í dag þá hafi þeir hækkað hlutfallslega mun minna en aðrir og munur á hæstu og lægstu launum sé minni hér en á Norðurlöndunum. Laun á vinnumarkaði hafi hækkað umtalsvert að undanförnu og kaupmáttur sömuleiðis. Góðir tímar séu framundan en raunveruleg hætta sé á ofhitnun í hagkerfinu.

Mörg hættumerki í atvinnulífinu

„Það eru mörg hættumerki. Við sjáum að innlend verðbólga er meiri en heildarverðbólgan sem við erum að mæla þar sem lækkandi olíuverð og styrking krónunnar heldur henni niðri. Innlendir þjónustuliðir hækkuðu um 4-5% á síðasta ári þannig að það kraumar hér verðbólga undir niðri. Við þurfum að gæta okkar,“ sagði framkvæmdastjóri SA en það eru líka jákvæð teikn á lofti.

„Þegar við skoðum heildarmyndina er hagkerfið okkar mun heilbrigðara en fyrir áratug síðan.“ Hagvöxtur byggist á auknum útflutningstekjum og það er mikill uppgangur í ferðaþjónustu og í útflutningi í iðnaði. Rekstur fyrirtækjanna er einnig heilbrigðari en fyrir áratug síðan og agaðri. „Það er miklu meiri innistæða fyrir því sem er verið að gera.“

Gagnrýnir tryggingarfélögin

Í viðtalinu gagnrýnir Þorsteinn tryggingarfélögin fyrir að hafa ekki upplýst um forsendur arðgreiðslna sem þau ákváðu nýverið en lækkuðu eftir harða gagnrýni almennings og fjölmiðla. Í raun hafi breytingar á evrópskum reglum falið í sér takörkun á getu fyrirtækjanna til að greiða arð vegna aukinna krafna um hækkun á eigin fé en ekki öfugt.

Hér fyrir neðan hlusta á viðtalið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×