Körfubolti

Helgi Már: Frábært að Ægir sé farinn til Spánar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Helgi Már Magnússon á ferðinni gegn Grindavík í kvöld.
Helgi Már Magnússon á ferðinni gegn Grindavík í kvöld. vísir/ernir
„Þetta var bara mjög flott. Það var mikill kraftur í okkur í byrjun og við settum svolítið tóninn fyrir það sem koma skyldi,“ sagði Helgi Már Magnússon, leikmaður KR, við Vísi eftir auðveldan sigur á Grindavík í úrslitakeppninni í kvöld.

„Við héldum þessum krafti út nánast allan leikinn, það er í raun ekki fyrr en aðeins í þriðja leikhluta að við duttum niður en maður fann í byrjun að þetta yrði gott kvöld. Það voru allir vel einbeittir og skiluðu sínu.“

Helgi er að leika lokatímabil sitt á Íslandi en hann ásamt liðsfélögum sínum er vanur stórum leikjum í úrslitakeppninni.

„Reynslan hjálpar til, sérstaklega í byrjun en svo verður maður að hugsa þetta eins og hvern annan leik. Fiðringurinn er í manni í byrjun en svo fjarar aðeins undan þessu eftir smá stund.“

Helgi sendi fyrrum liðsfélaga sínum kaldar kveðjur í léttum tóni.

„Það er fínt að losna við Ægi. Hann er erfiður í klefa og ekki gott að spila með honum. Að hann sé farinn til Spánar er frábært því það var kalt á milli hans og Pavels. Þeir voru að rífast um boltann og það var gott að losna við hann,“ sagði Helgi með bros á vör þar til honum snerist hugur.

„Ég dýrka Ægi. Hann á allt gott skilið og við erum mjög ánægðir með að honum gengur vel á Spáni. Við getum aðlagað okkur að því að spila án hans eins og við höfum gert undanfarin ár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×