Skoðun

Fokk ofbeldi

Benjamín Sigurgeirsson skrifar
UN Women á Íslandi kynntu fyrir stuttu húfu til sölu sem ber merkið FO. FO stendur fyrir Fokk Ofbeldi og er átakinu ætlað að vekja athygli og koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi gegn konum.

Kynbundið ofbeldi gegn konum er gífurlegt mannréttindabrot og er átakinu í ár beint að konum á flótta. UN Women á Íslandi benda á að konur á flótta hafi ekki verið fleiri síðan við lok seinni heimstyrjaldarinnar og þar sem margar þeirra eru einar á báti eru þær í mikilli áhættu á að verða fórnarlömb kynferðisofbeldis, mansals og annars ofbeldis.

Fólk á Íslandi brást heldur betur við þessu átaki og eru FO húfunar fyrir löngu orðnar uppseldar en ágóðinn fer í að styrkja hjálparstarf við landamæri í Evrópu meðal annars til að tryggja konum öruggt athvarf. Fólk á Íslandi hefur greinilega óbeit á ofbeldi og hikar ekki við að gefa því fingurinn með því að splæsa í húfu og það er frábært.

Þegar maður heyrir af þessu ofbeldi gagnvart konum þá fyllist maður vanmætti því það virðist vera lítið í manns valdi sem unnt er að gera til að bæta þetta ólíðandi ástand. Það er því gott þegar samtök eins og UN Women á Íslandi gefa almenningi kost á að leggja eitthvað af mörkum til að gefa ofbeldinu fingurinn. En ofbeldi einskorðast ekki við konur á flótta í stríðshrjáðum löndum og ef til vill getur fólk á Íslandi lagt enn meir á vogarskálarnar til að gefa öðru ofbeldi fingurinn því það er svo sannarlega meira ofbeldi sem má fokka sér.

Það er til dæmis gífurlegt ofbeldi sem grasserast í kringum ólögleg fíkniefni. Nærtæk dæmi frá Íslandi eru t.d. þegar lögreglan misbeitti valdi sínu til að leita innanklæða á 16 ára stúlku (1), þegar tollverðir misbeittu valdi sínu við grófa og óþarfa leit á karlmanni (2) og þegar spænsk kona var þvinguð til að troða fíkniefnum upp í leggöngin á sér og flytja til Íslands aðeins til að vera tekin til fanga hér og dæmd í fangelsi (3). Þetta er aðeins brotabrot af því ofbeldi sem á sér stað í kringum ólögleg fíkniefni á Íslandi.

Fyrir utan landsteinana er þetta ofbeldi í kringum ólögleg fíkniefni mun stórtækara og sum lönd sem framfylgja hörðum dómum og jafnvel dauðarefsingum fyrir brot á fíkniefnaólögum (4). Í Bandaríkjunum er gífurlegur fjöldi fólks sem situr í fangelsi fyrir fíkniefnabrot sem mörg hver eru smávægileg. Ólögleg starfsemi og skortur á regluverki í kringum fíkniefni felur í sér ómælda fjárhagslega hagsmuni glæpagengja sem mörg hver eru uppspretta ofbeldis um alla jörð.

Mikið af því ofbeldi sem fylgir ólöglegum fíkniefnum myndi gjörsamlega fokkast upp ef lögum yrði breytt og komið á regluverki með sölu þeirra. Ekki ólíkt því sem við gerum nú þegar með áfengi, en mörg þeirra efna sem nú eru ólögleg eru töluvert skaðminni einstaklingum og samfélagi heldur en áfengi (5). Einnig myndi skapast gífurlegar skattekjur í kjölfarið eins og hefur sést í kjölfar lögleiðingar kannabisefna í Coloradofylki Bandaríkjanna (6). Slík aukning á skattekjum á Íslandi gæti reynst traustur bandamaður í endurræsingu á heilbrigðiskerfinu sem hefur verið til umræðu undanfarið (7).

Annað ofbeldi sem viðgengst nær óhindrað nær alls staðar á jörðinni er ofbeldi gagnvart ómennskum dýrum. Ofbeldi gagnvart ómennskum dýrum, sem réttlætt er með þeim meinta tilgangi að það sé nauðsynlegt til að fólk fái næringu, er af þvílíkri stærðargráðu að á jörðinni eru fórnarlömbin talin í hundruðum milljónum. Á dag. Einnig er ofbeldið gagnvart þessum dýrum svo hrottalegt að fólk kemst ekki hálfa leið með að reyna að skilja þá skelfingu sem þau upplifa. Ofbeldi sem ómennsk dýr verða fyrir fær engan fingur heldur þrífst það í skjóli fjöldans sem með hegðun sinni og mataræði eru sjálf hluti af ofbeldinu. Þegar fólki er bent á hvernig það framfleitir ofbeldi með þessum hætti er það jafnvel líklegra að segja fokk jú frekar en fokk ofbeldi.

Ofbeldi gagnvart ómennskum dýrum, líkt og ofbeldi gagnvart mannfólki, er oft kynbundið og beinist í meiri og grófari mæli gagnvært kvenkyns dýrum. Þannig eru gylltur og kýr skorðaðar í bása og frjóvgaðar reglulega af mannavöldum en sambærileg brot gagnvart konum væru aðeins framkvæmanleg af skrímslum og vonandi eingöngu til í hryllingsmyndum (8). Þessi þvingaða frjóvgun er gerð í þeim tilgangi að gylltur fæði grísi svo fólk geti fengið skinku og beikon og að kýr fæði kálfa svo fólk geti fengið mjólkina þeirra.

Reglulega birtast fréttir af slæmum meðferðum dýra erlendis frá (9,10) en aðstæður dýra eru einnig afleitar hér á landi (11,12). Og nema maður sé staðfastur í að ljúga að sjálfum sér þá getur maður verið þess fullviss um að ofbeldið er mun meira en það sem ratar á síður fjölmiðlanna. Maður spyr sig því: Hvar er fokk ofbeldi þegar það kemur að svínum, kúm og hænum?

Ólíkt mörgu ofbeldi sem viðgengst þá er fólki verulegt vald sett til að takmarka ofbeldi gagnvart ómennskum dýrum með því einu að taka ekki þátt í því. Með því að borða ekki dýr eða dýraafurðir. Með því setur fólk skýrt fokkmerki á ofbeldi.

Ofbeldi einkennist ekki af nokkrum skúrkum eða einstaka hetjum heldur einna helst þeim fjölda fórnarlamba sem fyrir því verða. Við getum gert betur í að fækka fórnarlömbum ofbeldis. Við getum sagt fokk ofbeldi og afnumið þau ólög sem nú gilda um ólögleg fíkniefni og hafa verið misbeitt til að réttlæta hræðilegt ofbeldi. Við getum sagt fokk ofbeldi og borðað færri dýr og fleiri plöntur. Svo getum við keypt FO húfur af UN Women á Íslandi.



Heimildir:

(1) http://www.dv.is/frettir/2016/1/12/handtaka-16-ara-stulku-kaerd-logregluthjonn-skodadi- kynfaeri-hennar-og-rass/

(2) https://skorrdal.net/velkominn-til-islands-fardu-ur-fotunum/


(3) https://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/12/20/trodu_fikniefnum_inn_i_leggongin/

(4) http://www.thegu­ar­dian.com/world/2016/feb/26/all-adult-males-in-one-iranian-villa­ge-execu­ted-for-drug-of­fences-official-says

(5) https://www.crimeandjustice.org.uk/publications/estimating-drug-harms-risky-business


(6) https://www.drug­poli­cy.org/sites/d­efault/files/Col­or­ado_Mariju­ana_Legalization_One_Year_Status_Report.pdf 

(7) https://www.endurreisn.is/

(8) https://vimeo.com/150941714


(9) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/02/23/hryllileg_medferd_a_dyrum/

(10) https://www.dv.is/frettir/2015/10/25/slaandi-myndir-fra-bresku-svinabui/

(11) http://kvennabladid.is/2015/10/15/svinin-okkar-eru-adthrengd-svelt-pyntud-og-veik-haettum-ad- borda-svinakjot/

(12) /g/2016160309946

 


Tengdar fréttir

Meðferð dýra til manneldis óverjandi

Til þess að viðhalda meintum lífsgæðum, halda uppi hefðum eða vegna vanafestu mannsins þurfa ótal ómennsk dýr að lifa við óviðunandi aðstæður sem fela í sér óþarfa þjáningar og sársauka.




Skoðun

Sjá meira


×