Viðskipti innlent

Ný fjármálakreppa gæti komið illa niður á ferðaþjónustu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Önnur fjármálakreppa myndi bitna harðast á útflutningsgreinum Íslendinga. Þar má nefna vöru- og þjónustuútflutning eins og ferðaþjónustu. Áhrifin á íslenska bankakerfið yrðu lítil sem engin. Þetta segir Friðrik Már Baldursson prófessor í hagfræði.

Mervyn King lávarður, fyrrverandi bankastjóri Englandsbanka, heldur því fram í nýrri bók sinni The End of Alchemy að önnur fjármálakreppa sé óumflýjanleg.

Neikvæðir stýrivextir og magnbundin íhlutun

Í bókinni vísar King í hið mikla ójafnvægi í hagkerfum heimsins og þá staðreynd að ekki hafi verið ráðist í nauðsynlegar umbætur á regluverki fjármálamarkaða á Vesturlöndum. Stýrivextir séu víða neikvæðir og seðlabankar hafi dælt fjármagni inn á markaði með magnbundinni íhlutun (e. quantitative easing) til þess að örva eftirspurn en með mjög dræmum árangri.

Friðrik Már Baldursson prófessor í hagfræði segir að það megi staldra við margt í skrifum King.

Hann tekur býsna sterklega til orða og talar um að önnur kreppa sé óumflýjanleg. Ertu sammála honum? „Ég held að Mervyn King sé ekki svo mikið að horfa á skammtímasveiflur í efnahagslífinu. Hann er meira að hugsa um hvernig regluverkið er í kringum banka og hvernig áhættutaka banka, sem leiddi til kreppunnar 2008, hún raunverulega leiði okkur aftur í svipaða fjármálakreppu,“ segir Friðrik Már. 

Myndi hafa lítil áhrif á bankana

Friðrik Már segir að slík kreppa myndi lítil áhrif hafa á íslensku bankana. Þeir séu vel fjármagnaðir, með há eiginfjárhlutföll og bankakerfið sé núna miklu minna. Áhrifin yrðu fyrst og fremst á útflutningsgreinar.

Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið ævintýri líkastur og sumir skynja vöxtinn í atvinnugreininni svipað og stemmninguna í fjármálageiranum á Íslandi árin 2006 og 2007. Ljóst er að önnur fjármálakreppa myndi bitna á útflutningsgreinum eins og ferðaþjónustu þar sem útflutningurinn felst í seldri þjónustu.

Friðrik Már segir að menn þurfi að taka þetta með í reikninginn þegar kemur að fjárfestingu í hótelum, svo dæmi sé tekið. 

„Þessi möguleiki á bakslagi, hann ætti alltaf að koma inn í áætlanagerð. Jafnvel þótt spá sé góð, og horfurnar núna eru mjög góðar, þá þarf alltaf að hafa þennan fyrirvara. Það getur komið bakslag og oft á tíðum kemur það úr einhverri átt sem maður á síst von á. Þetta er eitthvað sem þarf að vera innbyggt inn í alla áætlanagerð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×