Viðskipti innlent

Hvergi betra fyrir konur að vera á vinnumarkaði en á Íslandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ísland trónir efst á lista The Economist sem mælir hvar mestar líkur séu á því að konur njóti jafnræðis á vinnumarkaði.
Ísland trónir efst á lista The Economist sem mælir hvar mestar líkur séu á því að konur njóti jafnræðis á vinnumarkaði. Vísir/Pjetur
Hvergi er betra fyrir konur að vera á vinnumarkaði en á Íslandi samkvæmt niðurstöðu mælinga frá breska tímaritinu The Economist. Tímaritið hefur gefið út vísitölu sem mælir tíu mismunandi þætti til þess að komast að því hvar mestar líkur séu á því að konur njóti jafnræðis á vinnumarkaði.

The Economist gefur árlega út svokallaða glerþaksvísitölu þar semþættir á borð við menntunarstig, fjöldi kvenna í stjórnunarstöðum, fyrirkomulag fæðingarorlofs og þáttöku kvenna í stjórnmálum eru mældir. Reiknað er út vegið meðaltal þessara tíu flokka og út kemur stigaskor hvers lands.

Í ár er stigaskor Íslands reiknað með í fyrsta sinn og þýtur Ísland beint í efsta sæti með 80 stig af 100 mögulegum. Noregur, Svíþjóð og Finnland raða sér í sætin á eftir Íslandi. Í umfjöllun The Economist um vísitöluna er tekið fram að ekki komi á óvart að Norðurlöndin raði sér í efstu sætin, þar taki konur þátt á vinnumarkaðinum til jafns við karla og að löng hefð sé fyrir jafnrétti kynjanna.

Neðst á listanum mælast Suður-Kórea, Japan og Tyrkland með 25, 27 og 28 stig af 100 mögulegum. Í þessum ríkjum eru karlmenn líklegri en konur til þess að mennta sig, starfa á vinnumarkaði og vera í stjórnunarstöðum auk þess sem að launamunur kynjanna er umtalsvert meiri en á Norðurlöndunum.

Hvað er glerþak?

Glerþakið er stundum notað sem myndlíking í jafnréttismálum til þess að tala um ósýnilegar hindranir sem heft geta framgang kvenna og minnihlutahópa á vinnumarkaði, óháð frammistöðu eða hæfni. Fræg er t.d. auglýsing VR um útrýmingu kynbundins launamunar þar sem glerþakið kemur fyrir.


Tengdar fréttir

Hrekja mýtuna um að konur segi nei

Hulda Bjarnadóttir hefur verið framkvæmdastjóri FKA í fimm ár. Hún segist hafa upplifað mikla vitundarvakningu á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×