Viðskipti innlent

Háskólinn í Reykjavík býður upp á nám í hagfræði

Sæunn Gísladóttir skrifar
Háskólinn í Reykjavík mun hefja kennslu á nýrri námsbraut í hagfræði frá og með næsta hausti. Þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir í námið. Meðal kennara verða dr. Friðrik Már Baldursson, prófessor; dr. Katrín Ólafsdóttir, lektor, dr. Axel Hall, lektor og fleiri sérfræðingar frá Háskólanum í Reykjavík og íslensku atvinnulífi. Tvær námsleiðir verða í boði: BSc-gráða í hagfræði og fjármálum og BSc-gráða í hagfræði og stjórnun segir í tilkynningu.

Viðskiptafræði hefur verið kennd við Háskólann í Reykjavík í áraraðir. 

„Það er þörf á aukinni þekkingu á sviði hagfræði í atvinnulífinu,“ segir Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar HR í tilkynningu. „Deildin hefur á að skipa mjög færum sérfræðingum á sviði hagfræði sem hafa áratuga reynslu af kennslu, rannsóknum og störfum fyrir atvinnulíf og samfélag. Stofnun nýrrar námsbrautar í hagfræði hefur verið í undirbúningi í tvö ár og er eðlilegt framhald af uppbyggingu kennslu í viðskiptatengdum greinum við háskólann.“

Í fyrstu verður boðið upp á nám í hagfræði til BSc gráðu en í því námi er lögð áhersla á að nemendur öðlist sterkan fræðilegan grunn í hagfræði, samhliða því að þeir fái haldgóða og hagnýta færni í að beita sinni þekkingu. Námið byggir á þeirri sterku hefð Háskólans í Reykjavík að þjálfa nemendur í að vinna í hópum, samskiptahæfni og þátttöku í þverfaglegu samstarfi. Til að undirbúa nemendur sem best fyrir framhaldsnám og störf í alþjóðlegu umhverfi er talsverður hluti námsins á ensku. Nám í hagfræði við viðskiptadeild HR er þriggja ára, 180 ECTS-nám.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×