Viðskipti innlent

Skorti reynslu af skipaútgerð

Ingvar Haraldsson skrifar
Jürgen Kudritzki, nýráðinn forstjóri Marorku, vill að Marorka aðstoði við alla mögulega þætti við rekstur skipa.
Jürgen Kudritzki, nýráðinn forstjóri Marorku, vill að Marorka aðstoði við alla mögulega þætti við rekstur skipa. fréttablaðið/anton brink
„Fyrirtæki sem vill selja skipafélögum vöru þarf að hafa reynslu af skipaútgerð. Þetta var ekki tilfellið þegar ég kom hingað, því hér var enginn með reynslu af skiparekstri,“ segir Jürgen Kudritzki, sem nýlega tók við sem forstjóri Marorku. Hann er Þjóðverji, fæddur í hafnarborginni Hamborg og hefur síðasta aldarfjórðunginn starfað í skipageiranum. Kudritzki segir Ole Skatka Jensen, fyrrverandi forstjóra, hafa skort reynslu af skipaútgerð, sem sé nauðsynleg Marorku.

Marorka hefur hingað til sérhæft sig í að innleiða orkustjórnunarkerfi í stór skip, sem spara, að sögn Kudritzki, 5-15 prósent af eldsneytisnotkun skipanna. Fyrirtækið hefur að undanförnu samið við mörg af stærstu skipafélögum heims.

Kudritzki vill að Maroka færi sig á nýjar slóðir og geri viðskiptavinum kleift að nálgast á landi allar upplýsingar sem gagnist við að hámarka hagkvæmni við aðra þætti skipareksturs en eldsneytisnotkun. „Orkustjórnun er góður grunnur en við viljum vinna að allri frammistöðu,“ segir hann.

Fyrirtækið vilji til að mynda geta boðið þeim sem séu á landi að nálgast upplýsingar sem snúa að öryggismálum, umsýslu eigna og frammistöðu áhafnarinnar á hafi úti. Að reka áhöfn á stóru flutningaskipi kosti á annað hundrað milljónir króna á ári. Stærstu skipafyrirtæki reki tugi eða hundruð skipa og því sé eftir miklu að slægjast við að auka hagkvæmni. Hin nýja vara muni því í grundvallaratriðum breyta því hvernig skipaiðnaðurinn sé rekinn.

„Skipaiðnaðurinn byggir ákvarðanir, sem teknar eru á landi, á upplýsingum sem fengnar eru með skriflegum hætti frá þeim sem eru um borð í skipunum. Stundum hafa þeir ákveðnar hugmyndir um frá hverju eigi að segja og hverju ekki,“ bendir hann á.

„Þú veist aldrei almennilega hvort verið sé að reka skipin á hagkvæmasta hátt,“ segir hann.

Marorka stefni nú að því að vinna betur úr þeim upplýsingum sem búnaður Marorku safni á skipum nú þegar og bæta við aðferðum til að vinna nýjar upplýsingar.

Með hinum nýju vörum verði Marorka ekki eins háð sveiflum í olíuverði, sem er mjög lágt um þessar mundir.

Hins vegar sé nú mikil umfram-afkastageta í skipaflutningum í heiminum sem hafi haft í för með sér að verð á farmflutningum hafi lækkað hratt. Fyrir ári hafi kostað tæplega 500 þúsund krónur að flytja 20 feta gám frá Sjanghæ til Rotterdam en það kosti í dag um 70 þúsund krónur. Þá kosti í dag 50 dollara, um 6.500 krónur, að flytja 20 feta gám frá Sjanghæ til vesturstrandar Bandaríkjanna.

Þetta hafi í för með sér verri afkomu fyrir skipafyrirtæki sem valdi því að þau séu ólíklegri til að fjárfesta í nýjum búnaði, til að mynda þeim sem Marorka bjóði upp á.

15:19 Árétting: Jürgen Kudritzki vill árétta að reynslu af skipaútgerð en ekki þekkingu á skipaútgerð hafi skort innan Marorku þegar hann tók við starfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×