Viðskipti innlent

Grillmarkaðurinn kaupir hlut í Skúla Craft bar

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hrefna Rósa Sætran, eigandi Fiskmarkaðarins og Grillmarkaðarins.
Hrefna Rósa Sætran, eigandi Fiskmarkaðarins og Grillmarkaðarins.
Grillmarkaðurinn hefur keypt hlut í Skúla Craft Bar. Þetta staðfestir Hrefna Rósa Sætran, eigandi Fisk- og Grillmarkaðarins. „Þeir voru þrír sem áttu barinn og einn er áfram og Grillmarkaðurinn á þá tvo þriðju eftir þetta,“ segir Hrefna.

„Okkur finnst þetta passa rosa vel saman. Okkur var farið að langa í bar en vorum ekki farin út í það að stofna nýjan bar, því það er svo mikið af börum í Reykjavík. Þannig að við ákváðum að kaupa okkur inn í besta barinn. Við sjáum fyrir okkur gott samstarf þar á milli,“ segir hún.

Hrefna segir að þau muni halda hugmyndafræðinni eins og hún er á Skúla í dag og muni rækta samstarf á milli Skúla og Fisk- og Grillmarkaðarins. „Við erum mjög hrifin af öllu eins og þetta er í dag. Við teljum okkur geta gert mjög góða hluti þarna. Við erum með Borg bjóra á Grillmarkaðnum og verðum með mikið úrval áfram af Borg bjórum á Skúla, svo er að koma út nýr bjór frá Borg núna 1. mars sem er búinn til fyrir Fisk- og Grillmarkaðinn og heitir Hrefna og hann verður þá í boði líka á Skúla,“ segir Hrefna Rós Sætran. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×