Viðskipti innlent

Tæp­lega tveggja milljarða skaða­bóta­kröfu vísað frá dómi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Jón Ólafsson
Jón Ólafsson vísir/arnþór/anton
Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að vísa skaðabótamáli iGwater ehf. gegn Icelandic Water Holdings hf., fyrirtækis Jóns Ólafssonar, frá dómi. Fyrrnefnda fyrirtækið hafði krafist skaðabóta upp á rúmlega 1,8 milljarða króna.

iGwater hét áður Iceland Glacier Wonders og selur vatnsflöskur undir heitinu „Sno Iceland Glacier Water“. Á síðasta ári féllu tveir dómar í Hæstarétti í málum fyrirtækjanna. Í öðru þeirra var ekki fallist á lögbannskröfu fyrirtækis Jóns þar sem ekki var talið að villst yrði á Iceland Glacier Water og Sno Iceland Glacier Water. Niðurstaða hins dómsins var að Iceland Glacier Wonders gert að afmá vörkumerkið Iceland Glacier úr firmaheiti sínu.

iGwater fór fram á skaða- og miskabætur vegna tjóns sem fyrirtækið varð fyrir vegna áðurnefnds lögbanns sem gilti þar til Hæstiréttur kvað upp dóm sinn. Það stóð yfir frá 1. nóvember 2013 til 4. júní 2015.

Lögbannið hafi haft það í för með sér spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum. Þá hafi Icelandic Water Holdings fylgt lögbanninu eftir af mikilli hörku og haft samband við verslanir sem seldu vatn iGlacier. Fyrirtækið hafi þurft að farga öllum sínum byrgðum og tapað gífurlegum viðskiptahagsmunum vegna bannsins.

Sökum þess að iGwater lagði engin gögn fram við þingfestingu málsins sem styddu kröfur þess og að kröfurnar væru aðeins byggðar á eigin mati félagsins þótti málatilbúnaður þess svo verulega vanreifaður að óhjákvæmilegt þótti að vísa málinu frá dómi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×