Innlent

Hávaðamengun í hafinu

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Azzedine Downes, formaður IFAW, og Vivek Menon, ráðgjafi IFAW, á frumsýningu Sonar Sea í Hvalasafninu á Granda.
Azzedine Downes, formaður IFAW, og Vivek Menon, ráðgjafi IFAW, á frumsýningu Sonar Sea í Hvalasafninu á Granda. vísir/ernir
„Hávaðinn neðansjávar truflar samskipti dýranna og skaðar velferð þeirra,“ segir Azzedine Downes,­ forseti IFAW, alþjóðlega dýraverndunarsjóðsins, sem kom hingað til lands í byrjun febrúar til að vera viðstaddur Evrópufrumsýningu heimildarmyndarinnar Sonic Sea á Hvalasýningunni á Granda. Myndin fjallar um hávaðamengun í hafinu og áhrif hennar á sjávarspendýr.

IFAW eru ein af stærstu dýravelferðarsamtökum heims með verkefni í öllum heimsálfum og hafa haldið því fram að hávaði í heimshöfunum valdi hvölum, höfrungum og öðrum sjávarspendýrum alvarlegum vandamálum.

Í heimildarmyndinni Sonic Sea er fjallað um dauða hvala af völdum hljóðsjáa herskipa og áhrif hávaða frá flutningaskipum og djúpsjávarborunum á líf sjávarspendýra. Í mars árið 2000 rak mikinn fjölda hvala af nokkrum tegundum á land á Bahamaeyjum og í myndinni er dauðinn rakinn til hljóðsjáa herskipa í grennd við eyjarnar.

„Hávaðinn margfaldast með tímanum og það er alls ekki gert nóg í því að vernda dýrin. Það er til betri tækni til þess að bora og stunda rannsóknir,“ segir Downes. „Fólk gerir sér ekki grein fyrir vandanum vegna þess að hann er undir yfirborði sjávar en dýrin kveljast. Við gætum aldrei þolað viðlíka hávaða. Á hverjum tíma eru um sextíu þúsund flutningaskip á ferð um höf heimsins og hávaðinn frá þeim er mikill í hafinu og þá mest frá allra stærstu skipunum. Flutningar um haf hafa aukist.“

En hávaðinn er ekki verstur vegna flutningaskipanna þótt hann trufli samskipti hvala að sögn Azzedine. „Olíufyrirtækin nota hljóðbylgjur til að leita að olíu og gasi undir sjávarbotni. Þessar hljóðbylgjur hafa afar skaðleg áhrif á hvali og fleiri sjávarspendýr. Í myndinni Sonar Sea er töluvert fjallað um aðferðir bandaríska hersins til þess að leita uppi skotmörk undir yfirborði sjávar. Herskip nota hljóðbylgjur til þess að leita uppi skotmörkin. Þessar hljóðbylgjur hafa mikil áhrif á lífríkið allt og hefur það orðið til þess að mikinn fjölda hvala og sjávarspendýra hefur rekið á land, við Kanaríeyjar, í Karíba­hafi og allt til Japans.“

Azzedine segir boranir við Grænland helst hafa áhrif á velferð hvala í nágrenni við Ísland en segir mikilvægt að gæta að truflunum vegna hvalaskoðunarferða. „Þetta er orðin mikil traffík sem þarf að fylgjast með. Ég hef aldrei skilið af hverju fólki er síðan boðið að smakka hval í lok sumra slíkra ferða. Það er með ólíkindum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×