Viðskipti innlent

N1 greiðir fyrrverandi forstjóra 87 milljónir

ingvar haraldsson skrifar
Eggert Benedikt Guðmundsson, fyrrum forstjóri N1.
Eggert Benedikt Guðmundsson, fyrrum forstjóri N1. Vísir/Valli
N1 gjaldfærði 87 milljónir króna á síðasta ári vegna launagreiðslna og hlunninda til Eggerts Benedikts Guðmundssonar, fyrrum forstjóra fyrirtækisins. Þetta kemur fram í nýútkomnum ársreikningi N1.

Eggerti var sagt upp í febrúar á síðasta ári en fær greitt sem samsvarar 5,8 milljónum króna á mánuði frá byrjun síðasta árs og út mars á þessu ári. Árið 2014 fékk Eggert 55 milljónir króna greiddar í laun og hlunnindi eða sem samsvarar 4,8 milljónum króna á mánuði.

N1 gaf út þegar Eggerti Benedikt var sagt upp að með uppsögninni væri verið að lækka kostnað við yfirstjórn félagsins. Fækka ætti framkvæmdastjórum um einn þar sem ekki ætti að ráða í stöðu framkvæmdastjóra markaðssviðs. Eggert Þór Kristófersson, sem starfaði sem fjármálastjóri fyrirtækisins, var ráðinn forstjóri í stað nafna síns. 

Launagreiðslur og hlunnindi N1 til stjórnarmanna og stjórnenda hækkuðu úr 163 milljónum í 237 milljónir króna milli ára eða um 45 prósent. Launagreiðslur til hins nýja forstjóra hækkuðu í 3,6 milljónir króna á mánuði úr 2,8 milljónum króna árið 2014, þegar Eggert Þór starfaði sem fjármálastjóri N1.

Hagnaður N1 jókst milli ára

Hagnaður N1 jókst milli ára og nam 1,8 milljörðum króna á síðasta ári miðað við 1,6 milljarða árið 2014. Í skýrslu stjórnar kemur fram að tekjur N1 hafi dregist saman um 14 prósent, og fallið úr 57 milljörðum króna í 49 milljarða króna. Ástæða tekjusamdráttarins er fyrst og fremst sögð vera lækkandi olíuverð sem hafi haft neikvæð áhrif á afkomu félagsins.

Stjórnin lagði til að greiddur yrði 1.050 milljónir í arð vegna starfsemi ársins 2015 eða sem samsvarar 3 krónum á hlut.

Arðsemi eiginfjár var 19,9 prósent en eigið fé N1 nemur 7,7 milljörðum króna. Eignir nema 18,8 milljörðum og skuldir 11,1 milljarði króna.


Tengdar fréttir

Eggert Benedikt hættir hjá N1

Eggert Benedikt Guðmundsson hefur komist að samkomulagi við stjórn N1 um að hann láti af störfum hjá félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×