Innlent

Alvarlegar athugasemdir gerðar við 65 prósent leikskólalóða

Þórdís Valsdóttir skrifar
Dæmi um ágalla sem teljast alvarlegir eru ef fallundirlagi á leiksvæðum er ábótavant eða ef sandur er á stéttum lóðarinnar.
Dæmi um ágalla sem teljast alvarlegir eru ef fallundirlagi á leiksvæðum er ábótavant eða ef sandur er á stéttum lóðarinnar. Fréttablaðið/Stefán
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gerði alvarlegar athugasemdir við 65 prósent leikskólalóða í árlegu eftirliti sínu. Af tilefni slíkra athugasemda eru tilmælum beint til leikskólayfirvalda að lagfæringar skuli fara fram strax.

Tæplega 100 lóðir voru skoðaðar, bæði lóðir leikskóla sem reknir eru af borginni og einnig einkarekinna leikskóla. Þetta kom fram í kynningu Heilbrigðiseftirlitsins á reglubundnu eftirliti í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum. Skoðuð eru leikvallatæki, fallundirlög, girðingar og fleira á lóðunum.

Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri hjá Heilbrigðiseftirlitinu, segir að orðanotkunin í athugasemdunum sé vandmeðfarin og þó notast sé við orðalagið „alvarleg athugasemd“ þá þýði það ekki að yfirvofandi slysahætta sé til staðar. „Þetta eru atriði sem við gerum athugasemd við og viljum að séu athuguð án tafar. Ef við komum að einhverju sem við teljum vera bráðhættulegt eða svo mikið alvarlegt að það geti ekki beðið þá myndum við gera eitthvað í málinu strax,“ segir Rósa.

Niðurstöður eftirlitsins eru sendar beint á skólastjóra þess leikskóla sem fær slíkar athugasemdir og afrit eru send á skóla- og frístundasvið og skrifstofu framkvæmda og viðhalds mannvirkja Reykjavíkurborgar. Heilbrigðiseftirlitið ætlast til að þeir aðilar er málið varða bregðist við athugasemdunum sem allra fyrst að sögn Rósu.

Dæmi um ágalla sem teljast alvarlegir eru ef fallundirlagi á leiksvæðum er ábótavant og ef sandur og möl er á stéttum lóðarinnar. Þá sé alvarlegum athugasemdum beint til viðkomandi leikskóla sem beri að bæta strax úr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×