Það mátti ekki sjá neina bikarþreytu hjá KR-ingum eftir að hafa hampað bikarmeistaratitlinum á laugardaginn.
„Það var fínt að fá alvöru leik eftir bikarleikinn. Það var smá bikarþynnka á mánudaginn en þegar við vissum að næsti leikurinn væri gegn Keflavík upp á deildarmeistaratitilinn voru menn aftur klárir í slaginn,“ sagði Brynjar léttur sem telur titilinn vera í höfn.
„Við erum ekkert að fara að tapa 3 af síðustu fjórum leikjum liðsins. Við getum verið kokhraustir með það að tölfræðin segir að við erum að fara að enda í efsta sæti. Við erum ofboðslega sáttir með að losna við liðin í 3-7 sæti í fyrsta leik í úrslitakeppninni.“
KR-ingar gengu langt með að tryggja sér heimavallarrétt í úrslitakeppninni í kvöld með sigrinum.
„Það er gríðarlegur kostur, sérstaklega ef við förum í oddaleik. Í fyrra gegn Njarðvík var það stuðningurinn hérna á heimavelli sem fleytti okkur alla leið þótt að við séum góðir á útivelli. Við höfum verið að vinna 85% útileikjanna síðustu árin, það er ágætis tölfræði.“

„Líkaminn er í flottu standi, ég er ekki orðinn 28 ára og á nóg eftir. Ég er ákaflega stoltur af þessum áfanga og ég var ekki á því að tapa þessum leik í kvöld. Þetta er aðeins eftirminnilegra en 200. leikurinn í efstu deild,“ sagði Brynjar sem mundi eftir fyrsta leiknum.
„Ég var 16 ára og það var einmitt gegn Keflavík í Sláturhúsinu. Fyrsti og eini leikurinn á ferlinum sem ég var rekinn úr húsinu. Það er alltaf hart barist gegn Keflavík og alltaf gaman að mæta þeim, sérstaklega þegar þetta er toppslagur.“