Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, átti enn einn stórleikinn fyrir LIU Brooklyn í nótt þegar hann skoraði 21 stig, tók sjö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í þriggja stiga sigri á Mount St Mary's Mountaineers, 77-74.
KR-ingurinn hitti úr fimm af ellefu skotum sínum í leiknum, þar af tveimur þriggja stiga skotum og þá var hann pottþéttur á vítalínunni með níu af tíu skotum niður.
Sjá einnig:Ótrúlegur leikur hjá Martin
Martin varð með leiknum í nótt fyrsti leikmaðurinn hjá Svartþröstunum í Brooklyn til að skora 20 stig eða meira í þremur leikjum í röð. Sá síðasti til að afreka það var drengur að nafni C.J. Garner.
Íslenski landsliðsmaðurinn hefur spilað stórvel með LIU í vetur og er að skora 15,2 stig að meðaltali í leik, taka 3,9 fráköst og gefa 4,5 stoðsendingar að meðaltali í hverjum leik.
Hann hefur bætt í stigaskorun frá síðasta tímabili þegar hann var að skora 10,1 stig að meðaltali í leik og gefa 3,3 stoðsendingar, en Martin er líka að spila fimm mínútum meira í hverjum leik en í fyrra.
Sigurinn í nótt var sá ellefti á tímabilinu hjá LIU. Liðið er í sjötta sæti NEC-deildarinnar með ellefu sigra og ellefu töp.
Svartþrestirnir eiga aftur leik aðra nótt þegar þeir mæta Sacred Heart á útivelli í Connecticut.
