Viðskipti innlent

Bankastjóri Landsbankans skilur reiðina vegna Borgunarmálsins: „Traustið er í molum“

Höskuldur Kári Schram og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segist skilja reiði þeirra sem mótmæltu við höfðuðstöðvar bankans í Austurstræti í dag en boðað var til þeirra vegna sölu Landsbankans á 31,2 prósenta hlut í Borgun.

„Það er náttúrulega mikil gremja í þjóðfélaginu með ýmislegt sem hefur aflaga farið á undanförnum árið. Traustið er í molum og þarna sýnist þeim að hlutir hafi brotnað. Það byggist á því að þau telja að þarna hafi einhverjir milljarðar verið á ferðinni,“ sagði Steinþór í samtali við fréttamann Stöðvar 2 í dag.

Bankastjórinn segist telja það fjarri lagi að milljarðar hafi verið þarna undir.

„Við gerðum ekki svona samning við Borgun eins og við gerðum við Valitor og fengum þannig ekki hlutdeild í þessum Visa-samningi úti í heimi. Á móti kemur að við seldum á mun hærra verði raunverulega í Borgun og tókum þannig hlutdeild í þeirra framtíðarávinningi. Við raunverulega fengum ávinning af þeirra vexti til framtíðar.“

Steinþór segir bankann algjörlega sammála því að málið verði skoðað og telur það mikilvægt en frá því var greint í gær að Landsbankinn muni skila Alþingi greinargerð um málið.

Viðtalið við bankastjórann má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Alþingi fær upplýsingar um söluna á Borgun

Fjármálaeftirlitið krafðist upplýsingar um söluna á Borgun í lok árs 2014. Hefur síðan ekkert látið í sér heyra. Forsætisráðherra kallar Borgunarmálið "augljóst klúður“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×