Körfubolti

Keflavík fær tvöfaldan WNBA-meistara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Monica Wright í leik með Lynx-liðinu.
Monica Wright í leik með Lynx-liðinu. vísir/getty
Lið Keflavíkur í Dominos-deild kvenna í körfubolta hefur fengið mikinn liðsstyrk fyrir seinni hluta tímabilsins og úrslitakeppnina. Þetta kemur fram á karfan.is.

Moncia Wright, tvöfaldur WNBA-meistari, er komin með leikheimild með Keflavík, en hún kemur til landsins á þriðjudag og hefur þá leik með Suðurnesjaliðinu.

Wright leikur í dag með Seattle Storm, en hún var áður á mála hjá Minnesota Lynx þar sem hún vann WNBA-deildina árið 2011 og 2013.

Þessi öflugi bakvörður er að koma úr erfiðum meiðslum og ætlar að spila sig í form fyrir átökin á næstu leiktíð í WNBA með Keflavíkurstúlkum.

Jenny Boucek, sem varð Íslandsmeistari með Keflavík 1998, er þjálfari Seattle og hjálpar sínu gamla félagi með því að senda Wright til landsins.

Fram kemur á karfan.is að ekki sé vitað hversu mikið hún geti eða megi spila með Keflavíkurliðinu þar sem hún er undir ströngu eftirliti læknaliðs Seattle.

Keflavík mætir Haukum í kvöld í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Snæfell um helgina. Fyrsti leikurinn sem hún getur spilað verður Suðurnesjaslagur á móti Grindavík annan laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×