Viðskipti innlent

Páskaeggin komin í verslanir rúmum tíu vikum fyrir páska

Birgir Olgeirsson skrifar
Páskaeggjunum er stillt upp við hlið jólaölsins í verslun Nettó á Akureyri.
Páskaeggjunum er stillt upp við hlið jólaölsins í verslun Nettó á Akureyri. Vísir/Sveinn Arnarsson
„Það er svolítið skondið að þetta gerist alltaf í janúar,“ segir Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Nóa Síríus, um kvartanir sem virðast berast árlega frá einstaklingum sem finnst súkkulaðipáskaeggin frá fyrirtækinu vera fremur snemma í verslunum miðað við árstíma.

Meðfylgjandi mynd var tekin í Nettó Akureyri þar sem páskaeggjunum hafði verið stillt upp við hlið jólaöls, en Íslendingar eru rétt nýbúnir að kveðja jólin og rúmar tíu vikur í páskadag.

„Við erum ekkert að byrja fyrr en áður, þetta er alltaf á svipuðum tíma. Við fáum þessar spurningar á hverju ári, að þetta sé of snemmt. Þetta byrjar hins vegar að seljast um leið. Svo eru þetta ekki stærstu eggin heldur litlu eggin sem fólk byrjar að grípa sér. Persónulega finnst mér skemmtilegt að sjá þetta í hillunum, þetta er svona vorboði í janúar, lífgar aðeins upp á stemninguna, enda veitir ekki af,“ segir Kristján Geir.

Einhverjum gæti þótt það skringilegt að neyta páskaeggs svo snemma árs, meira að segja áður en sjálf langafastan hefst, þar sem minnst er þess tíma sem sjálfur Jesú Kristur fastaði fjörutíu daga í eyðimörkinni áður en hann var krossfestur á föstudeginum langa og reis svo upp frá dauðum á páskadegi. 

Kristján Geir segist hafa litlar áhyggjur af því fólk sármóðgist yfir því. „Við höfum ekki verið að hugsa um þetta þessi þrjátíu til fjörutíu ár sem við höfum verið með páskaegg á boðstólum,“ segir hann léttur í bragði.  „Það er enginn sem pínir þig til að kaupa.“

Hann segir söluna ganga ágætlega á þessum árstíma. „Þetta er bara frábær vara og gaman að geta boðið upp á þetta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×