Arnar Guðjónsson og lærisveinar hans í Svendborg Rabbits unnu fimmtán stiga útisigur á SISU, 104-89, í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.
Svendborg Rabbits liðið hefur þar með unnið þrjá leiki í röð og ennfremur sex af síðustu sjö leikjum sínum í deildinni.
Axel Kárason spilaði tæpar 24 mínútur og var með 6 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar á þeim.
Bandaríkjamaðurinn Brandon Rozzell var allt í öllu með 33 stig og 6 stoðsendingar.
Svendborg Rabbits vann fyrsta leikhlutann 29-26 og var síðan komið ellefu stigum yfir í hálfleik, 55-44. SISU beit aðeins frá sér í seinni hálfleiknum og munurinn var kominn niður í sjö stig í lokaleikhlutanum. Leikmenn Svendborg gáfu þá aftur í og kláruðu leikinn sannfærandi.
Arnar Guðjónsson tók við Kanínunum af íslenska landsliðsþjálfaranum Craig Pedersen í nóvember. Liðið tapaði fyrstu tveimur leikjunum undir hans stjórn en hefur síðan unnið sjö af níu leikjum.
Eina tap liðsins frá því í byrjun desember var eins stigs tap á útivelli á móti Næstved.
