Viðskipti innlent

Creditinfo kaupir allt hlutafé í eistneska félaginu Krediidinfo A/S

Sæunn Gísladóttir skrifar
Reynir Grétarsson, forstjóri Creditinfo International, segir félagið lengi hafa haft augastað á Krediidinfo A/S því séu þessi kaup einkar ánægjuleg.
Reynir Grétarsson, forstjóri Creditinfo International, segir félagið lengi hafa haft augastað á Krediidinfo A/S því séu þessi kaup einkar ánægjuleg. Mynd/aðsend
Creditinfo Group hefur keypt allt hlutafé í eistneska félaginu Krediidinfo A/S af alþjóðafyrirtækinu Experian Group Limited. Eftir kaupin er Creditinfo Group komið með starfsemi í öllum Eystrasaltslöndunum, Lettlandi, Litháen og  Eistlandi, segir í tilkynningu.

Krediidinfo A/S var stofnað árið 1993 og er leiðandi aðili á sínu sviði í Eistlandi. Velta félagsins á síðastliðnu ári var 500 milljónir ISK. Starfsmenn félagsins eru 37 og býður félagið upp á sambærilega þjónustu og Creditinfo Group, sem felst fyrst og fremst í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga, markaðsrannsókna og lánshæfismats einstaklinga og fyrirtækja. Creditinfo Group er með starfsemi víðsvegar um heim eða í 22 löndum og sinnir fjárhags- og viðskiptaupplýsingaþjónustu og ráðgjöf á 30 mörkuðum. Starfsmenn félagsins eru tæplega 400 talsins. 

Hugmyndin að því að byggja upp starfsemi í Eystrasaltslöndunum kviknaði fyrir 18 árum, þegar Creditinfo var innan við ársgamalt félag.  Talið var að tækifæri fólust í því að flytja út þekkingu og hugvit sem orðið hafði til á Íslandi.  Það var þó ekki fyrr en árið 2003 sem fyrsti starfsmaðurinn í Eystrasaltslöndunum var ráðinn.  Með kaupunum á Krediidinfo A/S í Eistlandi verða starfsmenn félagsins um 100 talsins  í öllum þremur löndunum og Creditinfo leiðandi á markaði á svæðinu. 

„Félagið hefur haft augastað á Krediidinfo A/S í langan tíma og því eru þessi kaup einkar ánægjuleg. Kaupin á félaginu styrkir samkeppnisstöðu okkar á svæðinu, það skiptir sköpum að vera komin með starfsemi í öllum Balkanlöndunum“, segir Reynir Grétarsson forstjóri Creditinfo International.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×