Guðni var einnig með mestar tekjur eða sem nam 26,3 milljónum króna. Framlög lögaðila námu 10,9 milljónum og framlög einstaklinga 13 milljónum króna. Eigin framlög Guðna námu 1,1 milljón króna.
Framlög og kostnaður við framboð Sturlu Jónssonar, Ástþórs Magnússonar og Hildar Þórðardóttur var innan við 400 þúsund krónur og því verður ekki skilað uppgjöri vegna framboðsins. Sturla segir í samtali við fréttastofu að hann áætli að framboð sitt hafi kostað innan við 300 þúsund krónur.

Elísabet Jökulsdóttir segir í samtali við fréttastofu að framboð sitt hafi kostað milli 400 til 500 þúsund krónur. Áætla má því að framboð þessara fimm aðila hafi ekki kostað yfir 2,2 milljónir króna. Ef svo er hefur framboð Guðna Th. Jóhannessonar kostað ellefu sinnum meira en framboð þeirra.
Verið að leggja lokahönd á uppgjör vegna framboðs Höllu Tómasdóttur og verður því skilað til Ríkisendurskoðunar í næstu viku.
Ekki náðist í talsmenn Andra Snæs Magnasonar eða Davíðs Oddssonar við gerð þessarar fréttar. Davíð Oddsson áætlaði hins vegar í kosningasjónvarpi RÚV að framboð sitt kostaði sex til sjö milljónir króna, þótt sú tala gæti hækkað.
Frestur til að skila inn gögnum vegna framboðanna rennur út um aðra helgi, þann 25. september, en þá verða þrír mánuðir liðnir frá kjördegi. Lögaðilar og einstaklingar mega að hámarki styrkja framboð um 400 þúsund krónur. Heildarkostnaður við framboðin mátti ekki fara yfir 38 milljónir króna.