
Stutt er í að næsta tímabundna bjórtímabil hefjist. Sala á þorrabjór hefst skömmu eftir að jólabjórinn fer. Borg brugghús tekur þó forskot á sæluna en í dag byrjar sala á bjórnum Vínlandi sem gerður er í samstarfi við bruggmeistara Four Winds frá Kanada. Bjórinn er óður til þess að um eitt þúsund ár eru frá því að Leifur Eiríksson og félagar fundu Ameríku. Bjórinn er meðal annars bruggaður úr íslenskum bláberjum og krækiberjum en um tvö til þrjú hundruð kíló af íslenskum berjum fóru í bruggunina, sem að mestu eru af Norður- og Austurlandi.
„Það má segja að haustber okkar Íslendinga séu það næsta sem við komumst náttúrulegum innlendum hráefnum til víngerðar,“ segir Árni Long, bruggmeistari í Borg Brugghúsi.
„Það var mikill heiður að fá að brugga með Four Winds sem er mjög virt brugghús í Kanada. Þeir framleiða tæpa milljón lítra af bjór á ári og hann er nær allur seldur innan fylkismarka Bresku Kólumbíu. Við erum ákaflega ánægðir með útkomuna á Vínlandi og hlökkum til að fá viðbrögð íslensks bjóráhugafólks,“ bætir hann við.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
