Körfubolti

Það er steravandamál í NBA-deildinni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
George Karl.
George Karl. vísir/getty
George Karl, fyrrum þjálfari Kings, Nuggets, Bucks, Sonics, Warriors og Cavaliers í NBA-deildinni, segir að verið sé að sópa vandamálum undir teppið í NBA-deildinni.

Leikmenn fara nánast aldrei í bann fyrir ólöglega lyfjanotkun í NBA-deildinni og á seinni tímum hefur aðeins einn lent í banni. Sá var að taka inn lyf sem áttu að hjálpa honum við skallavandamál.

„Við stærum okkur af betra lyfjakerfi en NFL og MLB en það er samt enn lyfjavandamál í deildinni þó svo það sé ekki það sama og var fyrir 30 árum síðan. Þetta fer meira í taugarnar á mér en hálfvitarnir sem eru að leika sér með eiturlyf,“ sagði hinn þaulreyndi Karl.

„Ég er að tala um stera og vaxtarhormón. Það er svo augljóst að ákveðnir leikmenn eru að nota þessi lyf. Hvernig stendur á því að ákveðnir menn verða eldri en um leið léttari og í betra formi? Hvernig fara þeir að því að jafna sig svona fljótt eftir meiðsli? Til hvers í fjandanum eru þeir að fara til Þýskalands í fríinu sínu? Ég efast um að það sé út af matnum þar.

„Það er líklegra að það sé út af nýjustu sterunum í Evrópu sem er erfitt að finna í lyfjaprófum. Því miður eru prófin alltaf tveimur skrefum á eftir lyfjunum. Lance Armstrong féll aldrei á lyfjaprófi.“

Karl vildi ekki nefna nein nöfn en er hann talar um Þýskaland er hann augljóslega að skjóta á Kobe Bryant sem fór iðulega til Þýskalands í sumarfríunum sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×