Bæði karla- og kvennalið Hauka munu spila um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í ár eftir að meistaraflokkar félagsins tryggðu sér sigur í undanúrslitaeinvígum sínum á mánudags- og þriðjudagskvöld.
Þetta verður í fyrsta sinn sem Haukar eru með bæði liðin í lokaúrslitum og ennfremur í fyrsta sinn í sjö ár sem félag nær þeim frábæra árangri.
Sama félag hafði ekki átt tvö lið í lokaúrslitum síðan vorið 2009 þegar KR fór með báða meistaraflokka sína í úrslitaeinvígið þar sem karlarnir fögnuðu sigri en konurnar urðu að sætta sig við tap. Bæði einvígin fóru þá í oddaleik.
Karlalið Hauka vann 3-1 sigur á Tindastól í undanúrslitaeinvígi sínu í ár en liðið vann 70-68 í spennuleik á Sauðárkróki í gær. Haukarnir hefndu þá fyrir það þegar þeir duttu út fyrir Stólunum í fyrra. Þá sendu Tindastólsmenn Haukana í sumarfrí á þeirra eigin heimavelli á Ásvöllum og í gær sendu Haukarnir Stólana í sumarfrí í Síkinu.
Kvennalið Hauka lenti 2-0 undir á móti Grindavík en vann þrjá síðustu leikina í einvíginu þar á meðal oddaleikinn með 35 stiga mun á Ásvöllum á mánudagskvöldið.
Þetta verður í tólfta sinn sem sama félag á tvö lið í lokaúrslitum síðan að úrslitakeppni kvenna var tekin upp árið 1993.
Haukarnir bætast hér í hóp með Keflavík (7 sinnum), KR (3 sinnum) og Grindavík (1 sinni) en þessi fjögur félög eru þau einu sem hafa náð svona flottri tvennu á tímabili.
Félög með bæði liðin í lokaúrslitum:
Haukar 2016
Karlar: Mæta KR eða Njarðvík
Konur: Mæta Snæfelli
KR 2009
Karlar: 3-2 sigur á Grindavík
Konur: 3-2 tap fyrir Haukum
Keflavík 2008
Karlar: 3-2 sigur á Snæfelli
Konur: 3-2 sigur á KR
Keflavík 2005
Karlar: 3-1 sigur á Snæfelli
Konur: 3-0 sigur á Grindavík
Keflavík 2004
Karlar: 3-1 sigur á Snæfelli
Konur: 3-0 sigur á ÍS
Keflavík 2003
Karlar: 3-0 sigur á Grindavík
Konur: 3-0 sigur á KR
KR 2000
Karlar: 3-1 sigur á Grindavík
Konur: 3-2 tap fyrir Keflavík
Keflavík 1999
Karlar: 3-2 sigur á Njarðvík
Konur: 3-0 tap fyrir KR
KR 1998
Karlar: 3-0 tap fyrir Njarðvík
Konur: 3-1 tap fyrir Keflavík
Grindavík 1997
Karlar: 3-0 tap fyrir Keflavík
Konur: 3-0 sigur á KR
Keflavík 1996
Karlar: 4-2 tap fyrir Grindavík
Konur: 3-1 sigur á KR
Keflavík 1993
Karlar: 3-0 sigur á Haukum
Konur: 3-0 sigur á KR
