Viðskipti innlent

Kastalinn seldur án auglýsingar og hægt að græða mikið á breytingum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kastali Hjálpræðishersins í Kirkjustræti var seldur án auglýsingar fyrir 630 milljónir króna fyrir milligöngu KPMG. Engin svör fást frá KPMG hvers vegna eignin var ekki auglýst.

Kaupandi fasteignarinnar var félagið Kastali ehf. En engar upplýsingar eru að finna um það félag í fyrirtækjaskrá. Fyrirtækið greiddi 630 milljónir króna fyrir húsið, sem er 1.405 fermetrar og á að fá það afhent hinn 1. október næstkomandi.

Hjálpræðisherinn mun samhliða sölunni hætta rekstri gistiheimilis líkt og hefur verið í herkastalanum um árabil. Þar sem eignin er skráð sem gistirými þarf kaupandi eignarinnar ekki að fá sérstakt leyfi vilji hann opna þar hótel. Það er meðal annars þetta sem gerir eignina svo verðmæta.

Viðmælendur fréttastofunnar sem vinna við fasteignaþróun segja að hægt sé að endurinnrétta húsið sem hótel og selja það aftur með mörg hundruð milljóna króna hagnaði. Húsið er við einn eftirsóttasta stað á gjörvöllu Íslandi. Þá er spurningin, ef eignin er svona verðmæt og það er svona grimm eftirspurn, hvers vegna var húsið ekki auglýst og selt hæstbjóðanda?

Einn viðmælandi fréttastofunnar furðar sig á því að eignin hafi ekki verið auglýst og í raun hafi eignin verið seld á mjög lágu verði miðað við undirliggjandi verðmæti hennar.

Gunnar Eide yfirmaður Hjálpræðishersins á Íslandi vísaði á KPMG sem var ráðgjafi við sölu eignarinnar. Ólafur Ólafsson hjá KPMG sagði að engin sérstök skýring væri á því hvers vegna fasteignin hefði ekki verið auglýst til sölu. Hann sagðist jafnframt ekki vilja svara spurningum fréttastofunnar um málið. Að svo búnu lagði hann á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×