Fastir pennar

Þegar allt springur

Þorvaldur Gylfason skrifar
Undarlegir hlutir gerast nú allt í kringum okkur. Brezki Íhaldsflokkurinn, flokkur Winstons Churchill og Margrétar Thatcher, getur hæglega sprungið í loft upp í sumar ef Bretar ákveða að segja skilið við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslunni 23. júní nk. Atkvæðagreiðslan er haldin vegna þess að Íhaldsflokkurinn er klofinn í málinu. David Cameron forsætisráðherra og 16 aðrir ráðherrar í ríkisstjórn hans vilja að Bretar verði áfram í ESB, en fimm ráðherrar vilja ganga út eins og allmargir þingmenn flokksins og óbreyttir flokksmenn. Aðrir helztu flokkar í þinginu leggjast gegn úrsögn Breta úr ESB, þ.m.t. Verkamannaflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og Skozki þjóðarflokkurinn.

Boris Johnson, fráfarandi borgarstjóri í London, mælir fyrir úrsögn, sumir segja til að geta orðið forsætisráðherra strax í sumar verði úrsögnin samþykkt. Fari svo, mun ekki bara Íhaldsflokkurinn splundrast heldur einnig Bretland þar eð Skotar munu þá trúlega heimta sjálfstæði án frekari tafar til að geta verið áfram í ESB á eigin spýtur. Líklegt virðist einnig að Norður-Írland muni þá kjósa að sameinast Írlandi í sama skyni. Eftir stendur þá England berstrípað ásamt Wales, varla svipur hjá sjón. Barack Obama Bandaríkjaforseti varar Breta opinskátt við útgöngu og hættunni á að Bretar myndu með því móti spilla sérstöku sambandi sínu við Bandaríkin.

Repúblikanar: Sama saga

Svipað er að gerast í Bandaríkjunum þar sem Repúblikanaflokkurinn, flokkur Abrahams Lincoln, virðist ætla að ganga sundraður til forsetakjörs í haust. Í fyrsta sinn í sögu landsins hefur nú annar stóru flokkanna kallað yfir sig óvinveitta yfirtöku eins og sagt er á viðskiptamáli. Kaupsýslumaðurinn og raunveruleikasjónvarpsstjarnan Donald Trump stendur einn eftir þeirra 17 manna sem sóttust eftir útnefningu repúblikana og virðist því líklegur til að hljóta útnefninguna á flokksþinginu í Cleveland í Ohio í sumar nema flokkseigendafélagið finni leið til að hafa útnefninguna af honum. Fari svo segist hann munu bjóða sig fram utan flokka. Ekki er heldur hægt að útiloka að flokkseigendafélagið tefli fram utanflokkaframbjóðanda til höfuðs Trump.

Repúblikanaflokkurinn klofnaði síðast 1912. Klofningurinn þá færði demókrötum Hvíta húsið á silfurfati. Það virðist einnig líkleg niðurstaða forsetakjörsins þar vestra í nóvember. Við bætist að efnahagur Bandaríkjanna fer nú batnandi, full atvinna er aftur komin á eftir hremmingar undangenginna ára, verðbólga er lítil sem engin og vextir eru nálægt núlli. Það ætti eitt sér í ljósi reynslunnar að duga demókrötum til sigurs jafnvel gegn sameinuðum repúblikönum enda þótt laun séu enn víða þrúgandi lág þar vestra og misskipting auðs og tekna sé mörgum þungbær.

Sviðin jörð ehf.

Áþekk staða er nú uppi hér heima. Fyrir liggur að Sjálfstæðisflokkurinn gengur sundraður til næstu alþingiskosninga þar eð Viðreisn Benedikts Jóhannessonar tölfræðings er fyrst og fremst stefnt gegn Sjálfstæðisflokknum vegna vanefnda flokksins í Evrópumálum. Það veikir flokkinn enn frekar að nú hefur fv. formaður flokksins, forsætisráðherra og seðlabankastjóri tilkynnt framboð sitt til forseta Íslands, maður sem hefur skilið eftir sig sviðna jörð hvar sem hann hefur drepið niður fæti sl. aldarfjórðung. Hann kýldi kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins niður um þriðjung, kýldi lestur Morgunblaðsins niður fyrir Bændablaðið, keyrði Seðlabanka Íslands í þrot („Það var aldrei kláraður lánasamningur á milli Kaupþings og Seðlabankans vegna þessa láns“ að sögn forstjóra Kaupþings í Fréttablaðinu 25. október 2014) og reyndi síðan að selja Ísland í hendur Rússum eftir hrun („Öll aðstoð frá Rússlandi er vel þegin“, Viðskiptablaðið, 7. október 2008) til að komast undan AGS og Norðurlöndum sem áttu þó eftir að bjarga því sem bjargað varð – svo fátt eitt sé talið.

Rannsóknarnefnd Alþingis ályktaði að hann hefði líkt og sex aðrir menn gerzt brotlegur við lög í aðdraganda hrunsins. Fjórir af þessum sjö voru hátt settir sjálfstæðismenn. Nánar tiltekið segir RNA í skýrslu sinni (2. kafli, bls. 46) að seðlabankastjórinn þáv. „hafi sýnt af sér vanrækslu í skilningi … laga … í tilteknum störfum sínum við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi og eftirlit með henni.“

Ætla má eftir allt sem á undan er gengið að einhverjir flokksmenn sjái e.t.v. votta fyrir tormerkjum á að senda mann með slíkan feril til Bessastaða. Stjórnmálaflokkar hafa losnað úr límingunum af minna tilefni.

Spyrjið repúblikana.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.


×