„Það er bara alveg fjarstæðukennt að tala um einhverja bólumyndun. Við erum með bransa sem dróst saman á árunum 2009 og 2010 og var enn að dragast saman árið 2012 um 50, 60 og 70 prósent,“ segir Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Hann bendir á að byggingabransinn sé margfalt minni en hann var fyrir hrun.
Fjárfestingarstigið allt saman er enn frekar lágt. Og í raun þyrfti það að vera miklu hærra.“
Helstu vankantarnir á framkvæmdum nú séu að það vantar litlar og meðalstórar íbúðir. „Það vantar réttu hvatana til að mæta þeirri eftirspurn sem við vitum að er fyrir hendi. Það er ekki brjáluð eftirspurn eftir dýrum og stórum íbúðum,“ segir Bjarni.
Þeir sem hafa áhyggjur af þenslumyndun benda jafnan á að iðnaðarmenn vanti til að manna þær framkvæmdir sem eru á teikniborðinu. Bjarni segir að skorturinn sé vissulega til staðar. „Þá erum við ekki að taka tillit til þess að starfandi í þessari grein er bara um það bil helmingur af þeim sem voru starfandi hér árið 2007.“

Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Byggiðnar, félags byggingarmanna, hefur áhyggjur af þenslumyndun hér á landi. „Það er verið að ræða um töluvert mikið af verkefnum sem eru fram undan. Áður en við lendum í einhverri bólu þá vil ég að við setjumst niður og skoðum hvort það er ekki hægt að stýra þessu með einhverjum hætti þannig að við séum ekki að lenda í að vera með allt of mikið undir í einu.“

Guðjón Emilsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, hefur í gegnum árin fylgst með kranavísitölunni. „Það er merkilegt hvað þessar tölur hafa lýst íbúðafjárfestingu vel. Þetta er ekki að ná þessum hæðum eins og 2007. Í mínum huga erum við ekki á sama þensluskeiði og þá.“
Hann segir að vöxtur í íbúðarfjárfestingu hafi verið neikvæður á fyrsta ársfjórðungi. „Eins og staðan er virðist þetta vera í jafnvægi. Vísitölurnar sýna ákveðið jafnvægi.“