Lífið

Hrútafýlan að hverfa

Freyr Bjarnason skrifar
Ævar Örn Jósepsson segir að fastakúnnarnir á Ölstofunni hafi tekið Drekktu betur-hópnum furðuvel.
Ævar Örn Jósepsson segir að fastakúnnarnir á Ölstofunni hafi tekið Drekktu betur-hópnum furðuvel. Mynd/Dagur Gunnarsson
„Þetta er svakaleg tala,“ segir rithöfundurinn Ævar Örn Jósepsson, einn þeirra sem koma að hinni langlífu spurningakeppni Drekktu betur.

Hún verður haldin í 600. sinn á Ölstofunni í miðbæ Reykjavíkur klukkan 18 í kvöld. Tólf ár eru liðin síðan keppnin var fyrst haldin og eru spurningarnar orðnar yfir átján þúsund talsins.

„Maður verður hálfskelkaður þegar maður hugsar til baka. Maður er búinn að vera að þessu í tólf ár,“ segir Ævar Örn og bætir við að keppnin í kvöld verði söguleg á alla lund. Illugi Jökulsson verður gestaspyrill, verðlaunin verða veitt fyrir þrjú efstu sætin og búast má við auknum fjölda gesta í tilefni dagsins en venjulega eru þeir í kringum þrjátíu í hvert skipti.

Stóra ástæðu fyrir langlífi Drekktu betur segir Ævar Örn vera þá að spyrlarnir eru aldrei þeir sömu í hverri viku. „Það er alls konar fólk sem tekur þátt. Þegar fólk er búið að mæta nokkrum sinnum er leitað til þess og spurt hvort það sé ekki til í að spyrja einhvern daginn. Því er yfirleitt tekið vel. Þetta er fólk með alls konar áhugasvið og spurningarnar verða gjörólíkar. Stundum gengur manni hörmulega og fær þrjú eða fimm stig en svo næst er maður með 25 stig,“ segir hann. „Mér finnst þetta það skemmtilegasta við þetta. Maður gengur aldrei að neinu vísu.“

Að sögn Ævars Arnar hafa spyrlar verið bókaðir fram á mitt sumar. Á kvenréttindadaginn 19. júní verður sérstakur viðburður í sögu Drekktu betur því þá verður spurningakeppni haldin í tilefni þess að 100 ár eru liðin síðan konur fengu kosningarétt á Íslandi. Konum hefur einmitt fjölgað mikið í keppninni undanfarin tvö ár. „Það hefur verið unnið markvisst að því með mjög góðum árangri að jafna í hópi spyrla þannig að það verði nokkurn veginn jafnt kynjahlutfall,“ segir hann. „Eftir að hlutfall kvenspyrla hækkaði hefur hlutfall kvenþátttakenda hækkað mjög. Hrútafýlan er nánast horfin af þessari keppni.“

Það er skammt stórra högga á milli hjá Drekktu betur-hópnum því í desember síðastliðnum féll keppnin niður í fyrsta sinn frá því hún var fyrst haldin árið 2002. Keppnin hefur verið haldin á Ölstofunni síðan í haust en hún hóf göngu sína á Grand Rokki. „Fastakúnnarnir á Ölstofunni hafa tekið okkur furðuvel. Klukkan 18 er drekkutími hjá fastakúnnunum en við höfum aðlagast þeim mjög vel og þeir okkur. Sambýlið gengur mjög vel.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.