Heilsa

Einungis fimm dagar

Nanna Árnadóttir og íþróttafræðingur skrifa
visir/getty
Nú þegar tæpar 2 vikur eru í jól eru líklegast flestir að keppast við að koma heimilinu og heimilisfólkinu í almennilegt stand. Klára að kaupa jólagjafirnar, fara með alla í jólaklippinguna, þrífa heimilið, baka smákökurnar, kaupa í matinn og skreyta jólatréið. Ekki má gleyma öllum jólahlaðborðunum og litlu jólunum þar sem nóg er af mat og víni, áður en sjálf jólahátíðin hefst.

Hátíðardagarnir eru bara 5

Samkvæmt skilgreiningu standa jólin yfir frá 24. desember til 6. janúar. Á þessu tímabili er nóg af veislum og áti og svo jólamyndaglápi, jólalestri og spilakvöldum með vinum og ættingjum. Við skulum þó hafa það hugfast að í desembermánuði, frá því að jólaundirbúningur hefst, og þangað til í byrjun janúar, þegar við sprengjum jólin í burtu á þrettándanum, eru einungis 5 hátíðardagar, ekki 37.

Margir eiga það til að taka sér frí frá heilbrigðum lífsstíl alla þessa 37 daga og gleyma því að borða hollt og hreyfa sig. Það gefur auga leið að það er ekki beinlínis hollt að gera líkamanum það að sprengja sig út af söltum og þungum mat, ásamt sætindum, í svona langan tíma og leyfa sér að detta í algjöran letipakka þar sem mesta hreyfingin sem þú færð er að ganga frá ísskápnum og upp í sófa til þess að hafa það kósý.

Mundu eftir hreyfingunni

Að sjálfsögðu er það allt gott og blessað að gera sér glaðan dag um jólin, nota hátíðirnar til þess að eyða tíma með fjölskyldunni, borða góðan mat og hlaða batteríin fyrir nýja árið. Það er hins vegar svo auðvelt að nýta þennan tíma líka í að halda áfram að byggja líkamann upp til hins betra og koma sterkur inn í nýja árið, í stað þess að hrökklast af stað á nýju ári og ætla sko að fara í ,,átak” eftir allt sukkið. Mjög sniðugt er til dæmis að gera það að hefð að fara út í góðan göngutúr með fjölskyldunni og koma þannig endurnærður inn og tilbúinn í næsta jólaboð. Aðrir þurfa á aðeins meira fjöri að halda og því tilvalið að skora á sig og aðra í kringum hátíðarnar og taka eina æfingu á dag áður en haldið er út í daginn, því líkurnar á því að maður fari að sprikla eftir að hafa borðað 450 grömm af hamborgarhrygg, meðlæti, jólaöli og heimagerðum ís eru afar litlar.

Hér er dæmi um æfingu sem hægt er að taka:

5 hringir af:

20 armbeygjur

20 hnébeygjur

50 sprellikarlahopp

1 mínútu planki

20 dýfur á bekk

Gangi ykkur vel!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×