Skoðun

Eru stjórnmál þitt mál?

Brynhildur S. Björnsdóttir skrifar
Við höfum öll skoðanir og brennum fyrir einhver málefni en fæst okkar hættum okkur formlega út í stjórnmálaþátttöku. Það þarf kannski engan að undra það, enda traust til Alþingis og stjórnmálafólks í sögulegu lágmarki. Á hverjum degi sjáum við sláandi fyrirsagnir úr stjórnmálum þar sem fólk hagar sér eins og fífl. Þeir sem hrópa hæst fá mesta plássið.

Þingmennirnir sem eyða frekar kröftum sínum í að rýna til gagns og vinna hljóðlega að því að bæta samfélagið eru ekki djúsí fyrirsagnarefni. Þaðan af síður þverpólitísk þingmál sem njóta stuðnings allra flokka. Og þau eru mörg.

Eru stjórnmál rotin?

Ég er engin undantekning. Lengi vel hélt ég mér kerfisbundið frá stjórnmálaþátttöku og vettvangurinn heillaði mig ekki. Hann birtist mér eins og dýragarður þar sem fólk barðist fyrir sérhagsmunum og gerði það að atvinnu sinni að rífast og skammast. Ég ímyndaði mér að öll stjórnmál væru rotin og sá fyrir mér senur úr House of Cards. Þangað til ég fann mitt partí. Stjórnmálaafl sem ætlaði að haga sér eins og manneskjur. Rýna til gagns án þess að stjórnast af sérhagsmunum. Eiga upplýsandi samræður og byggja ákvörðunartöku á gögnum í stað þess að láta popúlisma, kreddur og fyrirfram gefnar niðurstöður ráða ferðinni. Það hefur ekki alltaf verið dans á rósum frekar en neinn starfsvettvangur, en ég hef a.m.k. ekki enn setið í reykfylltum herbergjum þar sem er plottað um það hvernig skal hnekkja á fólki eða flokkum. Enn hefur siðferðiskennd minni ekki verið misboðið.

Stjórnmálin verða aldrei betri en fólkið sem er í þeim

En þessi grein á ekki að snúast um mína þátttöku í stjórnmálum. Heldur þína. Stjórnmál eru nefnilega ekkert annað en tilraun fólks til að betrumbæta samfélag sitt. Stjórnmálin verða þó aldrei betri en fólkið sem nennir að taka þátt í þeim. Ef heilsteypt fólk með hjartað á réttum stað nennir því ekki, verða stjórnmálin glötuð. Það er vissulega fyrsta skref að hafa skoðun á málunum og rýna til gagns, en ef þú býður ekki fram krafta þína er lítil von um að skoðun þín eða lausnir muni ná hljómgrunni eða verða til þess að breyta einhverju.

Stjórnmálafólk er ekki geimvísindamenn

Stjórnmálafólk er ekki geimvísindamenn sem þekkja öll vandamál af eigin raun eða eru með lausnirnar, en eru til í að vera milliliður. Öll þingmál og lagabreytingar byrja á hugmynd. Þingmenn fá hugmyndir ýmist í gegnum samtöl við fólk, með því að fletta blöðunum eða hlusta á raddir í samfélaginu.

Ég leyfi mér að fullyrða að allir þingmenn vilja gera gagn, þótt áhugasvið þeirra og skoðanir stjórni forgangsröðuninni. En enginn getur gert gagn án samtals. Og þar kemur þú inn. Vissir þú til dæmis að á Alþingisvefnum eru símanúmer og netföng allra þingmanna? Vissir þú að það geta allir sent inn umsagnir um frumvörp á meðan þau eru í nefndum og miklar líkur á því að þú verðir kallaður inn sem gestur til nefndarinnar til að segja þína skoðun? Það vissi ég ekki heldur fyrr en ég sat á þingi sem varaþingmaður, en það ættu auðvitað allir að vita.

Taktu þér og þínum hugsjónum pláss

Taktu ákvörðun í dag um að láta ekki þitt eftir liggja. Taktu þér og þínum hugsjónum pláss. Taktu upp símtólið, skrifaðu grein, sendu inn álit þitt til fastanefnda Alþingis og bjóddu fram þína krafta. Segðu stjórnmálafólki frá því sem þarf að breyta. Rýndu til gagns með því að koma með raunhæfar lausnir. Athugaðu hvort það sé einhver stjórnmálaflokkur sem þér hugnast að taka þátt í. Mættu á opna fundi og vertu óhræddur við að nálgast áhrifafólk í flokkunum. Ef það vill ekki hlusta á það sem þú hefur fram að færa á það sjálft lítið erindi í stjórnmál. Stjórnmál er ekki elíta. Þau eru þitt mál.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×