Viðskipti innlent

Áform hluthafahópa um áhrif og sæti í stjórn gengu eftir

ingvar haraldsson skrifar
Ljósmyndari Fréttablaðsins kom að lokuðum dyrum fyrir hluthafafund VÍS síðdegis í gær. Fulltrúar félagsins vildu ekki leyfa neinar myndatökur á fundinum.
Ljósmyndari Fréttablaðsins kom að lokuðum dyrum fyrir hluthafafund VÍS síðdegis í gær. Fulltrúar félagsins vildu ekki leyfa neinar myndatökur á fundinum. fréttablaðið/anton brink
Áætlanir tveggja hópa um að kaupa upp hluti í VÍS með það að markmiði að ná inn manni í stjórn gengu eftir á hluthafafundi félagsins í gær.

Annars vegar var um að ræða félagið Óskabein ehf. sem hefur keypt ríflega fimm prósenta hlut í VÍS síðastliðinn mánuð og hins vegar hjónin Guðmund Þórðarson og Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur, fyrrum eigendur Skeljungs.

Guðmundur og Svanhildur boðuðu til hluthafafundarins þann 17. október eftir að hafa eignast 5,05 prósenta hlut í VÍS. Að lágmarki þarf fimm prósenta eignarhlut í VÍS til að boða til hluthafafundar. Hjónin voru bæði í framboði en Svanhildur dró framboð sitt óvænt til baka í gærmorgun þar sem hjónin töldu sig ekki bæði eiga möguleika á að ná stjórnarkjöri.

Guðmundur og Norðmaðurinn Jostein Sørvoll, fulltrúi Óskabeins, náðu báðir kjöri í stjórn. Sørvoll hefur áratuga reynslu af tryggingarekstri í heimalandinu og víðar en hann er stjórnarformaður norska tryggingarfélagsins Protector Forsikring.

Með þeim í stjórninni verða Bjarni Brynjólfsson, Helga Jónsdóttir og Herdís Fjeldsted. Helga og Herdís voru sjálfkjörnar eftir að Svanhildur dró framboð sitt til baka.

Afkoma VÍS hefur verið undir væntingum markaðsaðila. Hlutabréf í tryggingafyrirtækinu hafa fallið um 6,5 prósent frá því uppgjör félagsins á þriðja ársfjórðungi var kynnt þann 29. október. Hagnaður VÍS nam tveimur milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 900 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Framlegð af tryggingarekstri var hins vegar neikvæð um 468 milljónir samanborið við 20 milljóna króna jákvæða framlegð á síðasta ári.

Andri Gunnarsson, lögmaður, og einn eigenda Óskabeins og nýkjörinn varamaður í stjórn VÍS, segir bæði vátryggingar- og fjárfestingarhluta VÍS hafa valdið vonbrigðum á síðasta ársfjórðungi. Hann segir aðra hluthafa hafa tekið jákvætt í hugmyndir sem Óskabein hafi kynnt um umbætur í rekstri félagsins. „Rekstrarkostnaður er eitthvað sem þarf að horfa til. Nú er VÍS að innleiða nýtt tölvukerfi sem gefur mikil tækifæri í skilvirkni og rekstrar­hagræðingu,“ segir hann. Þá þurfi að keppa að því að hagnaður verði af vátryggingastarfsemi félagsins.

Andri býst ekki við að stjórnarkjöri fylgi breytingar á æðstu stjórnendum VÍS. „Þetta endurspeglar sannarlega einhverjar áherslubreytingar en maður finnur það á hluthöfum að menn eru mjög spenntir að vinna með núverandi stjórnendum til þess að efla félagið enn frekar,“ segir Andri við Markaðinn.

Meðal annarra hluthafa í Óskabeini eru Gestur B. Gestsson, eigandi Sparnaðar, Fannar Ólafsson, eigandi Íshesta og hluthafi KEA-hótela, Sigurður Gísli Björnsson, eigandi Sæmark sjávarafurða.


Tengdar fréttir

Vilja fá fulltrúa sinn í stjórn VÍS

Hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson hafa óskað eftir aukahluthafafundi í VÍS þar sem kosið verði um nýja stjórn félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×