Viðskipti innlent

Vilja fá fulltrúa sinn í stjórn VÍS

Ingvar Haraldsson skrifar
Sigrún Ragna Ólafsdóttir hringdi VÍS inn í Kauphöllina árið 2013. Mikil hreyfing hefur verið á hlutabréfum í félaginu að undanförnu.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir hringdi VÍS inn í Kauphöllina árið 2013. Mikil hreyfing hefur verið á hlutabréfum í félaginu að undanförnu. vísir/valli
Hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson hafa óskað eftir aukahluthafafundi í VÍS þar sem kosið verði um nýja stjórn félagsins.

SNV Holding og Hedda eignarhaldsfélag ehf., sem eru bæði í eigu hjónanna, hafa aukið við eignarhlut sinn um 2,8 prósent á síðustu dögum og eiga nú 5,05 prósent í VÍS. Eigendur 5 prósenta hlutar í VÍS geta kallað eftir hluthafafundi í félaginu.

Guðmundur segir þau munu sækjast eftir stjórnarmanni í stjórn VÍS á hluthafafundinum. „Við vorum að bæta við okkur hlut og höfum áhuga á að koma að stjórn félagsins,“ segir hann.

Þá séu bara fjórir stjórnarmenn í VÍS en Steinar Þór Guðgeirsson lögmaður hætti í stjórninni í ágúst. „Það er alveg eðlilegt að það séu fimm í stjórn í svona stóru félagi,“ segir Guðmundur.

Talsverð hreyfing hefur verið á hlutabréfum á síðustu dögum. Kvika, sem áður hét MP banki, hefur aukið við eignarhlut sinn í VÍS um 4,4 prósent í þessum mánuði og á nú 6,2 prósent í félaginu.

Auk þess kom fram í flöggunartilkynningu til Kauphallar Íslands að Arion banki hefði selt 1,5 prósenta hlut í VÍS og ætti nú undir 5 prósenta hlut í félaginu.

Yfirleitt er kosið um stjórn félaga á aðalfundi en síðasti aðalfundur VÍS fór fram þann 12. mars. Þá urðu breytingar á stjórn VÍS í kjölfar þess að Hallbjörn Karlsson fjárfestir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarformennsku í félaginu. Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu skattamála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, dró einnig framboð sitt til stjórnarsetu til baka. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×