Viðskipti innlent

Guðmundur og Sørvoll náðu sæti í stjórn VÍS

ingvar haraldsson skrifar
Sex manns voru í framboði til aðalstjórnar VÍS.
Sex manns voru í framboði til aðalstjórnar VÍS.
Bjarni Brynjólfsson, Guðmundur Þórðarson, Helga Jónsdóttir, Herdís Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands og Norðmaðurinn Jostein Sørvoll, fulltrúi félagsins Óskabein ehf., skipa nýja stjórn VÍS. Stjórnarkjörinu lauk á hluthafafundi nú fyrir skömmu.

Hjónin Guðmundur Þórðarson og Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, sem áður áttu Skeljung, boðuðu til hluthafafundarins um miðjan október eftir að hafa eignast yfir fimm prósent hlut í VÍS. Hjónin voru bæði í framboði en Svanhildur Nanna dró framboð sitt óvænt til baka í morgun.

Því voru Helga og Herdís sjálfkjörnar í stjórnina. Samkvæmt samþykktum VÍS verða að lágmarki tveir af hvoru kyni að vera í fimm manna stjórn. Svanhildur taldi ekki líkur á að hún og eiginmaður hennar næðu bæði stjórnarkjöri.



Sjá einnig: Hjónin töldu sig ekki bæði eiga möguleika á sæti í stjórn VÍS

Jóhann Halldórsson var eini frambjóðandinn í aðalstjórn VÍS sem ekki hlaut brautargengi í kosningunni. Í framboðsræðu sinni sagðist hann bjóða sig fram til að gera ákveðnar breytingar á rekstri félagsins og taldi alla alla fundarmenn vita hvað um væri rætt.

Þá var Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir sjálfkjörin sem annar tveggja varamanna í stjórn vegna ákvæðis um jafnræði milli kynja. Þá hafði Andri Gunnarsson betur í kappi við Davíð Harðarson um kjör sem annar varamaður.

Hagnaður VÍS á fyrstu níu mánuðum ársins nam tæpum tveimur milljörðum króna miðað við 900 milljóna hagnað á sama tíma fyrir ári. Tap varð hins vegar af vátryggingarstarfsemi sem nam 468 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×