Skoðun

Atvinnuíþróttalistamenn

Berglind Helgadóttir skrifar
Dagur Myndlistar er vitundarátak þar sem starf myndlistarmannsins er kynnt fyrir almenningi. Eftir því sem við vitum meira öðlumst við betri skilning á hlutum og þekking eykur víðsýni og dregur úr fordómum. Það eru kannski ekki svo margir sem þekkja myndlistarmenn eða vita hvað starf þeirra felst í og þess vegna er Dagur Myndlistar mikilvægur vettvangur til kynningar á þessu áhugaverða starfi.

Myndlistarmenn og íþróttamenn eiga margt sameiginlegt. Atvinnumenn í íþróttum fá greitt fyrir ástundun æfinga í íþrótt sinni, þeir keppa á mótum og sýna þannig afrakstur sinn. Í langflestum tilfellum þurfa íþróttamenn að uppfylla ákveðnar kröfur til að öðlast þátttökurétt á mótum. Listamenn keppa með öðrum hætti; meðal annars á sýningum víðsvegar um heiminn. Íþróttamenn fara í æfingabúðir, stundum til annarra landa, þar sem þeir nýta tímann í æfingar á öðrum velli, sem veitir þeim á einn eða annan hátt nýtt sjónarhorn á iðkun sína, samtímis og hún er dýpkuð og þróuð áfram. Listamenn fara í vinnustofudvalir, bæði hérlendis og erlendis, þar sem þeir leita eftir skapandi áhrifum frá nýju umhverfi. Það fer allur tíminn í strangar æfingar og árangurinn leynir sér ekki. Veitt eru verðlaun fyrir ástundun og það ekki að ástæðulausu. Það er nefnilega mikilvægt að stunda greinina, mæta, æfa sig og læra nýja tækni; það þarf tíma til að ná afburðartökum á viðkomandi grein, hvort sem hún tengist íþróttum eða listum.

Ekki geta allir orðið atvinnuíþróttamenn þó svo að flestallir geti hreyft sig. Það eru einstaklingar sem hafa skarað fram úr á sínu sviði, náð góðum tökum á tækni og eytt fjöldamörgum tímum í ástundun, sem sjá uppskeru erfiðis síns með því að öðlast tækifæri til að starfa í greininni. Ef íþróttamenn hefðu ekki tækifæri til að stunda grein sína sem aðalatvinnu myndu eflaust mörgum ekki þykja jafnspennandi að fylgjast með leik eða keppni. Gæðin væru einfaldlega ekki þau sömu. Hið sama gildir um myndlistina; fái listamenn ekki tækifæri til að stunda myndlist sem aðalatvinnu verður þróun hennar ekki söm og möguleiki er á því að gæði rýrna og rannsóknir nái ekki að kafa nægilega ofan í kjölinn á viðfangsefninu.

Ég rakst á áhugaverða stærðfræðijöfnu um daginn sem setur myndlist í ákveðið samhengi.

Samtímamyndlist er = ,,ég gæti gert þetta” + ,,já en þú gerðir það ekki”.

Að baki listaverki geta legið áralangar rannsóknir, nám og athuganir. Í mörgum tilfellum er kannski ekki augljóst hversu mikil vinna það er, sem samtímis er ástæðan fyrir því að listaverkið er vel heppnað. Það hefur orðið til vegna ígrundunar, endurtekninga, breytinga og þróunar. Við fáum aðeins að sjá lokaafrakstur þeirrar vinnu sem tók listamanninn að skapa hið einstaka, eða hið fjölfaldaða, verk. Það er ekki aðeins vinnan sem liggur að baki einstaka verki sem skiptir máli, heldur er það einnig menntun og öll fyrri reynsla listamannsins sem kemur þar saman. Þó að tiltekið verk hafi tekið skamman tíma að verða að veruleika, er það margra ára reynsla, menntun og ástundun sem leiddi til þess að verkið var skapað og þess vegna þurfum við á atvinnulistamönnum að halda.




Skoðun

Sjá meira


×