Viðskipti innlent

Reglur um húsleit í fyrirtækjum formfastari í Svíþjóð en á Íslandi

Heimir Már Pétursson skrifar
Réttur fyrirtækja sem sæta rannsókn samkeppnisyfirvalda í Svíþjóð til að fylgjast með rannsókninni er ríkari þar en á Íslandi. Þá ákveða dómstólar sektarupphæðir í Svíþjóð en ekki Samkeppniseftirlitð sjálft eins og hér á landi.

Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins boðuðu til fundar um réttarstöðu fyrirtækja við rannsókn mála á Grand hóteli í morgun. Í erindi Unu Særúnar Jóhannsdóttur sérfræðings hjá sænska Samkeppniseftirlitinu kom fram að rannsókn á samkeppnisbrotum í Svíþjóð og innan Evrópusambandsins er um margt ólík því sem þekkist hér á landi. En Una hafði ekki heimild sinna yfirmanna til að veita viðtöl vegna starfa sinna.

Helga Melkorka Óttarsdóttirmynd/logos
Helga Melkorka Óttarsdóttir hæstaréttarlögmaður hjá Logos og sérfræðingur í samkeppnismálum fór yfir stöðu þessara mála hér á landi. Hún segir reglurnar efnislega þær sömu hér, þótt þeim sé að einhverju leyti beitt öðruvísi.

„Maður myndi gjarnan vilja sjá ákveðinn þátt varðandi húsleit. Ég tók eftir því t.d. að í Svíþjóð er það þannig að rafræn gögn eru ekki tekin nema með samþykki viðkomandi fyrirtækis. Það er eitthvað sem við þekkjum ekki hér. Það er tryggt að fulltrúi fyrirtækisins fylgist með því að gögnum sé eytt hjá Samkeppniseftirlitinu. Þetta höfum við ekki séð hér,“ segir Helga Melkorka.

Þá ákveða dómstólar í Svíþjóð upphæð sekta vegna samkeppnisbrota en ekki Samkeppniseftirlitið eins og hér.

„Þetta eru ákveðin sjónarmið sem ganga í þá átt að sektir sem smkeppnisyfirvöld ákveða eru í rauninni ákveðin refsins og alla jafna eru það dómstólar sem ákveða refsingu. Þannig að það er klárlega eitthvað sem ætti að skoða,“ segir Helga Melkorka.

Réttur fyrirtækja í Svíþjóð til að fylgjast með rannsókn á sér er ríkari en hér.

„Og þetta er eitthvað sem ég held að ætti að hafa sem reglu. Þetta eykur traust og trúnað á stjórnvaldi og eykur réttaröryggi,“ segir Helga Melkorka Óttarsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×