Promens er stór vinnustaður á Dalvík, sem áður hét Sæplast. Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir fyrirtækið áfram verða stóran hluta af atvinnulífi í bænum og að ekkert fararsnið sé á verksmiðjunni.

Sjá einnig: Fluttu höfuðstöðvar til útlanda eftir að Seðlabankinn hafnaði undanþágu frá höftum.
Fyrirhugaður flutningur höfuðstöðva fyrirtækisins er tilkominn vegna þess að Seðlabankinn hafnaði beiðni fyrirtækisins um undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði forsætisráðherra um afstöðu hans á þingi í gær. Sagði Árni þekkingarfyrirtæki flytja unnvörpum úr landi vegna gjaldeyrishafta.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði að fyrirtækið hefði verið selt í nóvember síðastliðnum og viljað fá afslátt af gjaldeyri til að nota til fjárfestinga erlendis. Þessar upplýsingar hefði hann fengið í samtali við Má Guðmundsson seðlabankastjóra.
Már segir fyrirtækið hafa viljað kaupa gjaldeyri á afslætti, fram hjá gjaldeyrisútboði Seðlabankans, fyrir nokkra milljarða króna. „Seðlabankinn hefur ekki veitt slíkar undanþágur. Hins vegar get ég ekki tjáð mig um einstaka viðskiptavini bankans,“ segir Már.
Samtök iðnaðarins hafa óskað eftir fundi með forystumönnum ríkisstjórnarinnar vegna málsins. Telur Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri samtakanna, þetta dæmi um alvarlegar afleiðingar fjármagnshaftanna. Fleiri fyrirtæki íhugi einnig að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur tekið í sama streng. Afnám gjaldeyrishafta sé lykilatriði í því að bæta hag íslenskra fyrirtækja.