Innlent

Frakkar kaupa Segulskekkju Soffíu

Jakob Bjarnar skrifar
Segulskekkja Soffíu arkar nú af stað út í hinn stóra heim. Egill Örn segir franska forlagið Zulma hafa staðið vel að útgáfum íslenskra skáldverka.
Segulskekkja Soffíu arkar nú af stað út í hinn stóra heim. Egill Örn segir franska forlagið Zulma hafa staðið vel að útgáfum íslenskra skáldverka.
Soffía Bjarnadóttir sendi fyrir jólin frá sér sína fyrstu skáldsögu: Segulskekkja og hlaut hún einróma lof gagnrýnenda. Forlagið var að ganga frá samningum við Zulma, franskt forlag, um að Segulskekkja verði gefin út í Frakklandi. Hlýtur það að teljast talsverð upphefð fyrir hinn unga höfund. Að sögn Egils Arnar Jóhanssonar, framkvæmdastjóra Forlagsins, hefur Zulma tekið ástfóstri við Ísland og íslenska höfunda og hafa til að mynda gefið út verk eftir Andra Snæ og Auði Övu. Egill Örn segir það liggja í augum uppi að þetta margfaldi lesendahóp Auðar, sem nú er að skrifa fyrir miklu stærra málsvæði en hið íslenska; málsvæði sem telur tugi milljóna.

„Þetta forlag hefur staðið sérlega vel að útgáfu íslensku höfundanna sinna til þessa,“ segir Egill Örn.

Í umfjöllun Vísis um hin Íslensku bókmenntaverðlaun var vitnað í orð Egils Helgasonar sem talar um gullöld bókmenntanna í þeim skilningi að íslenskir höfundar eru nú að skrifa fyrir Frakkland, Þýskaland og í raun allan heiminn. Nafni hans Örn tekur heilshugar undir það.

„Á undanförnum árum hefur réttindasala á íslenskum bókum til erlendra útgefenda gengið vel. Að sjálfsögðu hafði það jafnframt góð áhrif fyrir íslenskar bókmenntir á erlendri grundu þegar við vorum í heiðurshlutverki á stærstu bókamessu heims í Frankfurt 2011.“

En, hvaða höfundar eru að ná mestum vinsældum á erlendum vettvangi? Egill segist ekki geta talað fyrir önnur forlög, sem eru sum hver með öfluga höfunda á sínum snærum, þó Forlagið sé stærst. Og sumir eru á eigin vegum. En nefnir dæmi um höfunda á borð við Arnald, Yrsu, Andra Snæ, Jón Kalmann, Auði Övu, Sjón og reyndar fleiri nöfn höfunda sem hafa verið að gera það ágætt á erlendum vettvangi. Og svo selst nóbelsskáldið alltaf einnig. Og Einararnir bæðir tveir, Már og Kárason á sumum svæðum svo sem á Norðurlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×