Viðskipti innlent

Stærstu sjávarútvegsfyrirtækin eiga 70 prósent aflaheimilda

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Samtals eiga fimm stærstu 31,14 prósent heimilda og þau tíu stærstu rúmlega helming, eða 50,45 prósent.
Samtals eiga fimm stærstu 31,14 prósent heimilda og þau tíu stærstu rúmlega helming, eða 50,45 prósent. Vísir
Unnið er að reglum um hámarkshlutdeild einstakra fyrirtækja í aflaheimildum. 20 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins eiga 70,7 prósent aflaheimilda. Fyrirtækin hafa lítillega aukið við hlutdeild sína frá árinu 2010, þegar þau áttu 69,99 prósent.



Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur, þingkonu Samfylkingar um samþjöppun aflaheimilda og veiðigjöld. Þar kemur einnig fram að stærsta sjávarútvegsfyrirtækið eigi 10,86 prósent aflaheimilda.



Aflahlutdeild stærsta fyrirtækisins hefur lækkað undanfarin tvö ár, frá því að hún var mest á því tímabili sem skoðað var; árin 2010 til 2015. Hæsta hlutdeild átti fyrirtækið árið 2013, þegar það átti 11,87 prósent aflaheimilda.

Samtals eiga fimm stærstu 31,14 prósent heimilda og þau tíu stærstu rúmlega helming, eða 50,45 prósent. 

Samkvæmt svarinu eru aflaheimildir umreiknaðar til þorskígilda miðað við þá þorskígildisstuðla sem voru í gildi á hverjum tíma þegar hlutdeild er reiknuð út. Þá miðast staðan við skráð skip viðkomandi útgerða 1. september hvert ár og þær hlutdeildir sem þá voru bundnar við sömu skip.



„Of mikil samþjöppun aflaheimilda er óæskilegt og þess vegna voru settar reglur um hámarksaflahlutdeild til að koma í veg fyrir það. Á hverjum tíma er þörf á að endurmeta allar reglur til að tryggja öruggari framkvæmd,“ segir Sigurður um hvort hann telji að samþjöppun aflaheimilda sé áhyggjuefni.

„Nú er unnið að endurmati á reglum um hámarkshlutdeild í ráðuneytinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×