Viðskipti innlent

Pizza 67 auglýst til sölu á Bland

ingvar haraldsson skrifar
Pizza 67 var lokað fram eftir degi í gær eftir að rafmagnið var tekið af.
Pizza 67 var lokað fram eftir degi í gær eftir að rafmagnið var tekið af. vísir/anton
Búið er að auglýsa pitsastaðinn Pizza 67 til sölu á söluvefnum Bland.is. Þar kemur fram að um sé að ræða lítinn en þekktan pitsastað á góðum stað í Reykjavík. Staðurinn sé með öllum tólum og tækjum sem þurfi til rekstursins.

Uppgefið verð er tíu milljónir króna en fram kemur að skipti komi til greina. Í auglýsingunni er sagt að um sé að ræða 100 fermetra pitsastað í Grafarvogi, þar sem annar pitsastaður Pizza 67 er til húsa. Ekki liggur fyrir hvort staðurinn við Grensásveg fylgi með í kaupunum en ekki náðist í Anton Traustason, eiganda Pizza 67 við vinnslu fréttarinnar.

Sjá einnig: Endurkoma Pizza 67: „Höfum þurft að ganga í gengum helvíti“

Eigandi húsnæðis veitingastaðar Pizza 67 við Grensásveg hefur einnig auglýst húsnæðið til sölu. Þar kemur fram að eignin hafi nýlega verið tekin í gegn að innan. Öll tæki í eldhúsi og innréttingar og góður og virkur leigusamningur fylgi með í kaupunum.

Pitsastaðurinn í Grafarvogi var einnig lokaður á meðan rafmagnslaust var á staðnum.vísir
Ógreidd laun og reikningar

Veitingastaðir Pizza 67 voru lokaðir fram á kvöld í gær eftir að lokað var fyrir rafmagnið vegna ógreiddra rafmagnsreikninga. Staðirnir opnuðu á ný í gærkvöldi eftir að rafmagnið komst á á ný.

Sjá einnig: Lokað á Pizza 67 eftir að rafmagnið var tekið af



Vísir greindi nýlega frá því að P67 ehf. sem rekur veitingastaði Pizza 67 skuldi starfsmönnum laun og hafi hvorki greitt lífeyrissjóðum né verkalýðsfélögum lögbundnar greiðslur. Þá herma heimildir Vísis að í síðustu viku hafi verið lokað fyrir sölu og bókhaldskerfi Pizza 67 auk þess að starfsmenn Pizza 67 hafi ekki fengið greidda desemberuppbót.

Lofaði að allir fengju greitt

Anton Traustason, eigandi Pizza 67, sagði við Vísi í síðustu viku að allir starfsmenn fengju greitt en það tæki tíma. Hann bar fyrir sig að opnun staðarins við Grensásveg hefði verið dýrari en gert hafi verið ráð yfrir í upphafi en var þess fullviss að reksturinn kæmist í samt lag á næstunni enda væri desember stærsti mánuður ársins í skyndibitabransanum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×