Viðskipti innlent

Knúnir að leita erlendis

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Vinnumarkaður Íslenskt vinnuafl nægir nú vart til að anna eftirspurn eftir starfsfólki á Reykjanesi. Ástæðan er sögð stórfelld fjölgun ferðamanna og uppbygging kísiliðju.

„Það stefnir í að við náum ekki að manna allar stöður í þessum bransa,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur.

IGS, dótturfélag Icelandair Group, sem annast flugvallaþjónustu á Keflavíkurflugvelli, hyggst ráða 150 manns á næsta ári. Hafa störfin verið auglýst í Póllandi. Gunnar Olsen framkvæmdastjóri segir að töluvert hafi borist af fyrirspurnum.

„Við erum með fólk frá Póllandi inni hjá okkur og erum að nýta þau ágætu sambönd sem við höfum í gegnum það ágæta fólk hjá okkur,“ segir Gunnar sem býst við að ráðninganefnd fari héðan til Póllands um mánaðamótin janúar og febrúar og gangi frá ráðningum í allar deildir. Það þýðir þá hlaðmenn, starfsmenn í flugeldhúsi, starfsmenn í ræstingum og farþegaþjónustu.

Gunnar segir Íslendinga ekki bjóðast. Álagstími ferðaþjónustu teygi sig nú eftir vorinu og haustinu.

„Við erum að finna fólk sem tekur á þessu tímabili, vorinu og haustinu og er auðvitað áfram yfir sumarið. En svo kemur skólafólkið þegar það losnar úr námi,“ segir Gunnar.



„Þó ég sé með í félaginu hjá mér 136 án atvinnu þá uppfylla þeir ekki þær kröfur að geta unnið hjá IGS. Fólk þarf að fara í bakgrunnsskoðun, vera með bílpróf og fleira. Það er ekki ásetningur að sniðganga Íslendinga,“ segir Kristján.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er ósáttur. Á þingfundi í fyrradag sagði Þorsteinn að atvinnuleysistölur væru um margt til að auka á bjartsýni, jafnvel þótt enn væru um 4.600 atvinnulausir. Hann furðaði sig á því að auglýst væri eftir starfsmönnum í útlöndum.

„Þetta skýtur mjög skökku við vegna þess að einn af aðaleigendum Icelandair eru íslensku lífeyrissjóðirnir. Og ég skil ekki hverju það sætir ef menn ætla að fara að flytja hér inn verkafólk til þess að halda niðri launum þegar við höfum hér nokkrar þúsundir á atvinnuleysiskrá,“ sagði Þorsteinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×