Viðskipti innlent

Jólaverslun eykst mjög á netinu

Sæunn Gísladóttir skrifar
Velta netverslana  um síðustu jól var fjórum sinnum meiri en fimm árum áður. Aukning hefur orðið í netverslun Íslendinga frá útlöndum,
Velta netverslana um síðustu jól var fjórum sinnum meiri en fimm árum áður. Aukning hefur orðið í netverslun Íslendinga frá útlöndum, Vísir/Pjetur
Mikil aukning er í veltu netverslana hér á landi. Velta innlendrar netverslana í fyrra var um 4,3 milljarðar króna samkvæmt skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar. Velta þeirra verslana, sem skráðar eru í atvinnugreinaflokk netverslana hjá Hagstofunni, var um síðustu jól fjórum sinnum meiri en fimm árum áður og umtalsverður vöxtur er einnig í netverslun Íslendinga frá útlöndum, segir í tilkynningu.

Jólaverslun hefur farið vel af stað á netinu og allt stefnir í að hún verði mjög góð í ár. Samkvæmt skýrslunni kemur fram að jólainnkaupin eru að breytast og sífellt fleiri gera jólainnkaupin á netinu.

,,Það má segja að hafi orðið sprenging í netverslun. Fólki finnst þægilegt að kaupa í símanum og tölvunni í stað þess að fara í stressið í verslunarmiðstöð. Margir kjósa að versla jólagjafir á netinu enda sparar netverslun sporin og auðveldar innkaupin. Margar netverslanir áforma aukinn kraft í netverslun nú fyrir jólin,” segir Þór Sigurðsson, sem stýrir vefsíðunni Kjarni.is sem er íslensk verslunarmiðstöð á netinu. Kjarni.is er með tæplega 600 íslenskar netverslanir.

,,Það hefur orðið mikil fjölgun í íslenskum netverslunum. Netverslun er að aukast ár frá ári og fólk verslar fjölbreyttari vörur en áður. Verslun með fatnað, skó og íslenska hönnun á netinu hefur á undanförnum árum aukist til muna.  Það getur verið mikil og tímafrek vinna sem fer í það að vera sýnilegur með verslun á netinu en með því að vera með allar netverslanir á einum stað eykst sýnileiki þeirri. Það eru mikil tækifæri í netverslun enda þægilegt að versla á netinu og ekki síst fyrir jólin þegar stressið eykst og veður og færð er oft erfið,” segir Þór.

Stærstur hluti kvenna kaupir fatnað og snyrtivörur samkvæmt skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar en meirihluti karlmanna kaupir raftæki og tölvur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×