Viðskipti innlent

Mesta vöxtur einkaneyslu frá 2007 framundan

ingvar haraldsson skrifar
Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans býst við áframhaldandi hagvexti.
Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans býst við áframhaldandi hagvexti. vísir/gva
Landsbankinn býst við að vöxtur einkaneyslu á þessu ári verði sá mesti frá á árinu 2007. Í nýrri þjóðhagsspá Landsbankans er 4,9 prósenta vexti einkaneyslu spáð á þessu ári saman borið við 6,7 prósenta vöxt árið 2007. Á næsta ári er svo búist við að vöxturinn aukist enn frekar og verði 5,0 prósent.

Landsbankinn spáir talsverðum hagvexti næstu árin sem verði drifin áfram af innlendri eftirspurn, það er aukinni einkaneyslu, samneyslu og fjárfestingu. Þannig spáir Landsbankinn 4,5% hagvexti í ár og næstu tvö árin, en hagvöxturinn lækki svo í tæplega 3,7% árið 2018. Búist er við að útgjöld hins opinbera muni aukast samhliða mikilli fjárfestingu, bæði í ferðaþjónustu og stóriðju.

Ástæður vaxtar einkaneyslu eru aukinn kaupmáttur launa, aukið veðrými heimila vegna umtalsverðrar lækkunar skulda og hækkunar fasteignaverðs, minnkandi atvinnuleysi, fólksfjölgun, styrking krónunnar og breytingar á aðflutningsgjöldum og tollum að því er segir í þjóðhagsspánni.



Einkaneysla enn sögulega lítill hluti landsframleiðslu


Þó er bent á í skýrslunni að vöxtur einkaneyslu sé mun hægari en eftir fyrri samdráttarskeið hér á landi.  „Nú, þegar brátt eru fimm ár liðin frá því að efnahagsbatinn hófst, hefur einkaneysla aukist að meðaltali um 2,6% á ári. Á fyrri hagvaxtarskeiðum frá árinu 1980 jókst einkaneysla að jafnaði um tæp 7% árlega.“

Það megi hugsanlega skýra að með því að skuldsetning heimila hafi verið meiri nú en oft áður og skuldirnar hafi þrengt meira að pyngjunni en fyrr. „Einkaneyslan var 52,5 prósent af landsframleiðslu árið 2014 sem er vel undir meðaltali síðustu 35 ára,  sem hefur nemið 57 prósentum. Á undanförnum 35 árum hefur einkaneysla að meðaltali verið um 57% af vergri landsframleiðslu.“

Fasteignaverð hefur hækkað mest í Vestmannaeyjum síðustu árin.landsbankinn
Fasteignaverð muni hækka enn frekar

„Flest bendir til þess að verð fasteigna haldi áfram að hækka,“ segir í spánni. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafði í september hækkað um 9,3 prósent á tólf mánuðunum þar á undan. „Það virðist t.d. ljóst að framboð á húsnæði, sérstaklega nýju húsnæði, uppfyllir ekki þá eftirspurn sem er fyrir hendi og slíkar markaðsaðstæður ýta verðinu upp. Þá hafa nýlega sést merki um aukna samkeppni á íbúðalánamarkaði. Lífeyrissjóðir eru farnir að gera sig gildandi á markaðnum.“

Bent er á nýlega úttekt Samtaka iðnaðarins þar sem fram kom að íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu hefði fækkað milli ára. 2.402 íbúðir væru í byggingu en þær þyrftu að vera að minnsta kosti 3.600 til að mæta eftirspurn. Þessi staða myndi ýta undir áframhaldandi hækkun fasteignaverðs.

Í spánni er bent á að þróun fasteignaverðs í stærri byggðum á landsbyggðinni hafi víðast hvar þróast með svipuðum hætti og á höfuðborgarsvæðinu. Það er ef Vestmannaeyjar eru undanskildar en þar hefur fasteignaverð hækkað um nærri 80 prósent frá árinu 2008.

Hlutabréfaverð hefur hækkað mun hraðar hér á landi en erlendis undanfarna mánuði.landsbankinn
Sjá ekki merki um bólu á hlutabréfamarkaði

Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, sem mælir gengi átta félaga í Kauphöllinni, hækkaði um 41 prósent frá áramótum til loka október. Engu síður sér Landsbankinn ekki merki um hlutabréfabólu. Svokallað V/H hlutfall, sem mælir virði félaga með tilliti til hagnaðar, hafi í Bandaríkjunum í gegnum árin sveiflast á milli 10 og 20 en langtímameðaltalið hafi verið 15,5. Of hátt hlutfall geti gefið vísbendingu um hlutabréfabólu.  

„Meðal V/H-hlutfall á íslenska markaðnum hefur verið u.þ.b. 16 það sem af er ári samanborið við 18 á bandaríska hlutabréfamarkaðnum (S&P 500) og 18,2 á þýska hlutabréfamarkaðnum (DAX). Frá upphafi árs 2013 hefur V/H-hlutfall innlendra félaga hreyfst nokkuð í takt við erlenda markaði og á svipuðu bili, þ.e. á milli 15 og 20. Í lok september stóð hlutfallið í 16,8 hér á landi. Þessi fylgni við erlenda markaði þarf ekki að koma á óvart sé litið til þess að stór hluti skráðra fyrirtækja á íslenska hlutabréfamarkaðnum færir tekjur og birtir uppgjör í erlendum myntum,“ segir í spánni.

Þá hafi gengi hlutabréfa í Kauphöllinni að miklu leyti þróast í samræmi við aukin hagnað félaganna.

Afnám hafta skapar óvissu

Hins vegar séu óvissuþættir í spánni. „Stærsti óvissuþátturinn á fjármálamarkaði á næsta ári lýtur að losun fjármagnshafta. Þótt það sé jákvætt og nauðsynlegt til lengri tíma að slaka á höftunum geta óvarleg skref í þá átt valdið óróa og fjármagnsflótta og leitt til lækkunar á mörkuðum til skamms tíma.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×