Viðskipti innlent

WOW óstundvísasta flugfélagið þriðja mánuðinn í röð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Meðaltöf WOW air í október, bæði við brottfarir og komur, var meira en hálf klukkustund.
Meðaltöf WOW air í október, bæði við brottfarir og komur, var meira en hálf klukkustund. Vísir/Vilhelm Gunnarsson
WOW air var óstundvísasta flugfélagið sem fór um Keflavíkurflugvöll í októbermánuði að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá flugleitarfyrirtækinu Dohop. Easy Jet var hins vegar stundvísasta flugfélagið en við útreikningana notast Dohop við tölur frá Isavia.

Samkvæmt þeim voru 65 prósent brottfara WOW air á réttum tíma. Komutími WOW var í 57 prósent tilvika í samræmi við áætlunartíma. Meðaltöf flugfélagsins í október, bæði við brottfarir og komur, var meira en hálf klukkustund, en þetta er þriðji mánuðurinn þar sem WOW air er óstundvísasta flugfélagið.

Hvað varðar stundvísasta flugfélagið, Easy Jet, þá voru komuflug þess á réttum tíma í 82 prósentum tilfella og brottfarir í 77 prósent tilfella. Meðaltöf Easy Jet við brottfarir var rúmar tíu mínútur og við komur var hún tæpar 9 mínútur.

Icelandair var á réttum brottafarartíma í 75 prósent tilfella og komutíminn var réttur í 71 prósent tilfella. Meðaltöf brottfara félagsins var tæpar 9 mínútur og meðaltöf komu rúmar tíu mínútur. Þá var Icelandair eina flugfélagið sem felldi niður flug í október.

Til að reikna út stundvísi flugfélaganna sækir Dohop upplýsingar um áætlaða brottfarar- og komutíma einstakra fluga og ber þær tölur saman við raunverulegan tíma brottfara og koma. Fyrirtækið birtir aðeins tölur flugfélaga sem eru með meiri en 50 flug á mánuði.


Tengdar fréttir

Löggan sækir um störf flugliða

„Fimm hundruð manns þreyttu inntökupróf, en alls bárust um fimmtán hundruð umsóknir fyrir starf flugliða,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow Air, um prófið sem sett var fyrir umsækjendur í Háskólabíói í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×