Viðskipti innlent

Airbnb á Íslandi sækir á

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alls eru 3.547 íslenskir gistikostir á skrá hjá Airbnb
Alls eru 3.547 íslenskir gistikostir á skrá hjá Airbnb Vísir/Vilhelm
Framboð af Airbnb-gistingu hér á landi hefur aukist um 120% frá sama tíma í fyrra. Sé miðað við Norðurlöndin eru hlutfallslega fleiri íbúðir á skrá hjá Airbnb hér á landi en í hinum Norðurlöndunum. Æ fleiri ferðamenn sem sækja Ísland heim nýta sér þjónustu Airbnb hér á landi.

Þetta kemur fram í útekt túristi.is á Airbnb-gistingu hér á landi. Alls eru 3.547 íslenskir gistikostir á skrá hjá fyrirtækinu samanborið við átta þúsund gistikosti í Noregi, tíu þúsund í Svíþjóð og 21 þúsund í Danmörku. Sé miðað við hina frægu höfðatölu er útbreiðsla Airbnb-íbúða því töluvert meiri en í nágrannalöndum okkar.

Ferðamenn sækja einnig í auknum mæli í Airbnb-íbúðir á Ísland. Samkvæmt upplýsingum túristi.is jókst fjöldi þeirra ferðamanna sem nýtir sér Airbnb á Íslandi um 152 prósent frá því í fyrra. Til samanburðar fjölgaði gistinóttum á íslenskum hótelum um 18 prósent fyrstu átta mánuðina í ár samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands.

Íslendingar sjálfir nýta sér þjónustu Airbnb æ meir en í ár hafa 87 prósent fleiri pantanir komið frá íslenskum ferðamönnum í gegnum vef Airbnb samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×