Skoðun

Dagbókarbrot frá Lesbos

Díana Karlsdóttir skrifar
Þriðjudagur varð minnisstæður. Leiðir mínar og konu frá Sýrlandi sem ég hef aldrei hitt áður lágu saman og skömmu seinna tók ég á móti syni hennar án þess að hafa nokkra þekkingu né reynslu af slíku.

Við hittumst ekki á förnum vegi eða á notalegu kaffihúsi. Hún kom siglandi gegnblaut á gúmmíbáti frá Tyrklandi, á flótta frá sínu eigin heimili, á flótta frá ISIS, á flótta frá Assad, á flótta frá ofbeldi og morðum eins og tugþúsundir landa hennar.

Á miðvikudag kom metfjöldi flóttamanna á land hér. Meira en 140 bátar sem báru 7.000 manneskjur í land til okkar, þessara örfáu sjálfboðaliða sem erum alls ekki í stakk búin til að taka á móti svona fjölda.

Á fimmtudag sigldi grískt varðskip niður einn gúmmíbátinn og meðal þeirra sem drukknuðu voru átta börn. Hvernig getur svona lagað skeð? Er þetta bara enn ein birtingarmynd þeirrar ringulreiðar sem hér ríkir?

Af hverju eru engin alþjóðleg hjálparsamtök hér? Hvar eru björgunarskipin, hjálparsveitirnar, Sameinuðu þjóðirnar og Rauði krossinn?

Af hverju eru engir að taka á móti þessum þúsundum sem flýja yfir hafið til grísku eyjarinnar Lesbos nema sjálfboðaliðar með allt of takmarkaða möguleika til að hjálpa?

Eitthvað þarf að breytast og eitthvað þarf að gera. Einhver verður að taka forystuna. Við sjálfboðaliðarnir viljum ekkert fremur en að hæft fólk taki ábyrgðina á þessu ástandi og því sem gert er. Við viljum ekki þurfa að halda áfram að berjast svona ein en þar sem aðrir virðast ekki reiðubúnir að gera neitt munum við halda áfram að gera skyldu okkar. Því það er sammannleg skylda okkar allra að snúa okkur ekki undan.

Við reiknuðum með að stóru hjálparstofnanirnar sem hafa reynslu af svona starfi væru hér en þær eru víðs fjarri svo við tökum á móti þeim sem koma hér í land og gerum það sem við getum. En þegar við höfum meira að bjóða en stuðning og faðmlag líður okkur betur. Ef til eru teppi til að bjóða köldu og blautu fólki, bleyjur fyrir smábörnin, vatn og kex og ef við erum svo heppin að hafa aðgang að læknum eða öðrum fagmenntuðum hjálparstarfsmönnum. En því miður er það ekki alltaf þannig.

Þegar þessir rúmlega 7.000 flóttamenn komu hér á miðvikudaginn dreifðu sjálfboðaliðar sér um ströndina sem er 9 km löng og við sinn hvorn endann eru búðir. Öðrum megin botnlaust tjald merkt Sameinuðu þjóðunum, sem sett var upp áður en þær hurfu af svæðinu, og hinum megin skýli sem sjálfboðaliðar hafa sjálfir sett upp. Við hvorar tveggja þessar búðir eru 2-3 klósett, sem ekki eru tæmd nema einu sinni í viku og eiga að duga fyrir 800 manns. Hér ríkir skipulagsleysi og ringulreið sem við erum stöðugt að reyna að berjast gegn en það er vonlaust.

Okkur vantar mat, mannsæmandi salernisaðstöðu og meiri mat. Og okkur vantar alvöru hjálparstofnanir sem taka ábyrgð og koma á skipulagi.

Talsmaður norska Rauða krossins, Christine Weima Lager, sagði í viðtali á TV2 í norska sjónvarpinu, að það ætti ekki að vera þannig að sjálfboðaliðar stæðu vaktina á ströndinni en að það væri frábært að þeir gerðu það. Já, víst er það frábært en þegar mörg okkar fara heim á sunnudag koma nýir sjálfboðaliðar hingað og þurfa að læra allt upp á nýtt. Hér er ekki mikið um kennslu, enginn yfirmaður, enginn ábyrgur sem getur miðlað af fenginni reynslu þeirra sem fara til þeirra sem koma. Og enginn veit hve margir koma. Sennilega fækkar í hópi sjálfboðaliða.

Hér hef ég hitt fólk sem hefur unnið ótrúleg þrekvirki og ég held að mörg okkar væru reiðubúin að standa áfram á strönd Lesbos, því þetta er ekki búið. En við þurfum hjálp og við þurfum hana strax!

Við erum að reyna að skilja fjarveru alþjóðlegra hjálparstofnana og vitum að þeirra er víða þörf. En það eru vonbrigði að enginn skuli koma hingað. Um 440.000 flóttamenn hafa komið til Grikklands á þessu ári. Þar af helmingurinn til Lesbos. Er það ekki raunverulegt neyðarástand sem verðskuldar athygli umheimsins? Þetta er ákall til stjórnvalda í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og á Íslandi. Aðhafist eitthvað, aðhafist eitthvað núna!

Þar til það gerist starfa samtök eins og „Dråpen i Havet“ ásamt fleirum frá mörgum löndum á staðnum og reyna að bjarga því sem bjargað verður. En það vantar meira. Meiri föt, meiri mat, meira fjármagn.

Ef einhverjir vilja hjálpa getum við lofað að það sem við tökum á móti fer samstundis í vatn, mat og aðrar nauðsynjar og hægt er að leggja inn á reikningana sem tilgreindir eru hér. Við sem erum á Lesbos núna og vinnum allan sólarhringinn að því að gera lífið svolítið bærilegra fyrir þau sem koma í land erum þakklát fyrir allan stuðning sem okkur er veittur.

Reikningur á Íslandi:

0137 15 380170

Kt. 051267 5759

Díana Karlsdóttir, Lesbos.




Skoðun

Sjá meira


×