Skoðun

Hennar líf vér kjósum

Kristján Jóhannesson skrifar
Nú þegar allt lítur út fyrir að gamli skólinn minn ætli að deyja drottni sínum langt fyrir aldur fram vegna valdatafls hinna háu herra í borgarstjórn annars vegar og þeirra í ráðuneyti mennta- og menningarmála hins vegar, get ég ekki lengur orða bundist.

Hvorki ég né foreldrar mínir sjáum eftir þeim fjármunum sem við lögðum í fimm ára langt söngnám mitt við Söngskóla Sigurðar Demetz. Það sama er ekki hægt að segja um ráðamenn. Núverandi stjórnvöld virðast í ofanálag ekki heldur hafa mikinn áhuga á að fjármagna framhaldsnám söngvara eða annarra sem stunda háskólanám, ef út í það er farið.

Síðan ég hóf nám hér ytra fyrir rúmu einu og hálfu ári hafa framfærslulánin sem ég þigg frá Lánasjóði íslenskra námsmanna lækkað um sem nemur rúmri hálfri milljón króna á ári.

Tæplega starfi sínu vaxnir

Ef borgarstjóri og ráðherra mennta- og menningarmála eru ekki tilbúnir til þess að veita fjármuni til eflingar mannauðs eru þeir tæplega starfi sínu vaxnir. Ef við sem þjóð sjáum okkur ekki fært að fjárfesta í menningu komum við til með að hafa lítið annað að státa af en þetta snotra sker sem við byggjum. Hvað verður þá um Gunnar og Njál, Snorra og Egil, Jónas og Kiljan, Kaldalóns og Leifs, Kjarval og Erró, Björk og Sigurrós? Verður mín kynslóð sú síðasta til þess að halda út í tónlistarnám og efla þannig veg okkar og menningu í samfélagi þjóðanna?

Skal glaður lifa á grjónagraut

Hér með biðla ég til þeirra sem valdið hafa að gera eins og skáldið býður og kjósa líf þessarar þjóðar, sögur hennar og ljóð, áður en framtaksleysi þeirra drepur mikilvægan póst í menningarlífi okkar. Ég skal glaður lifa á grjónagraut í staðinn.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×